„Það sem lagt var fram í dag er jólapakki sem er ekkert nema umbúðir, en hefur lítið innihald,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar, en Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið og VR slitu í dag kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.
Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið, VR og Landssamband verslunarmanna vísuðu kjaradeilu sinni við SA til ríkissáttasemjara í dag. Hann boðaði deiluaðila til samningafundar í dag þar sem samninganefnd SA kynnti nýtt tilboð. Sigurður segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með tilboðið.
„Það var enginn samningsgrundvöllur með því tilboði sem Samtök atvinnulífsins lögðu fram í dag. Þeir höfðu dregið upp þá mynd að þeir ætluðu að leggja fram tilboð sem myndi liðka fyrir gerð kjarasamninga, en það sem þeir lögðu fram í dag er langt frá því sem við höfðum væntingar til.
Tilboðið fól í sér að taxtakerfið hækkaði um einn launaflokk, sem er 1.750 krónur og að taxtakerfi sem næði upp að 225 þúsundum krónum á mánuði hækkaði um 5.500 kr. til viðbótar og síðan launataxtar upp að 265 þúsund krónum á mánuði fengju þessa 5.500 kr. hækkun og það sem þar væri fyrir ofan fengi 2% launahækkun. Þetta er langt frá því að ganga upp,“ segir Sigurður.
Í viðræðunum hefur verið rætt um samning sem gildi í 9-12 mánaða. Sigurður segir að SA hafi ljáð máls opnunarákvæðum í september á næsta ári.
Sigurður segir að viðræður séu í algerri biðstöðu og erfitt að spá fyrir um framhaldið. Hann á ekki von á að sáttasemjari boði til nýs fundar alveg á næstunni. Nú þurfi landssamböndin að fara yfir stöðuna og meta framhaldið.