Spáð fyrir um skotárásina í Hraunbæ

Frá aðstæðum í Hraunbæ í byrjun mánaðarins.
Frá aðstæðum í Hraunbæ í byrjun mánaðarins. mbl.is/Rósa Braga

Lögreglan var undir það búin að atburður hliðstæður þeim sem átti sér stað í Hraunbæ í Reykjavík í byrjun þessa mánaðar, þar sem karlmaður skaut ítrekað af haglabyssu í íbúð sinni og síðan á lögregluna þegar hún mætti á staðinn, gæti átt sér stað. Maðurinn féll fyrir skotum lögreglu þegar þess var freistað að fara inn í íbúðina og yfirbuga hann en áður höfðu ítrekaðar tilraunir til þess að ræða við hann engu skilað. Maðurinn átti við geðræn vandamál að stríða.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur meðal annars það hlutverk lögum samkvæmt að greina ógnir sem kunna að stafa að íslensku samfélagi vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka og hefur sérstök skýrsla verið gefin út á grundvelli þeirrar vinnu undanfarin ár. Tilgangurinn er að tryggja að lögregla sé sem best í stakk búin til þess að takast á við slíkar aðstæður áður en til þeirra kann að koma.

„Hættan á slíkum verknuðum jafnan til staðar“

Slík skýrsla kom síðast út síðastliðið sumar en þar er meðal annars fjallað um hliðstæðar aðstæður og lögregla stóð frammi fyrir í Hraunbæ fyrr í mánuðinum. Þar segir meðal annars að hætta á hryðjuverkum hafi verið talin frekar lítil hér á landi. Meðal annars vegna þess að upplýsingar hafi ekki legið fyrir um að slíkt væri yfirvofandi. Sama hafi verið uppi á hinum Norðurlöndunum fyrir nokkrum árum en það hafi hins vegar breyst.

„Ef leggja á mat á getu til að fremja hryðjuverk á Íslandi telur greiningardeild að eggvopn, skotvopn svo sem haglabyssur eða rifflar og heimatilbúnar sprengjur séu þau vopn sem líklegast yrðu notuð,“ segir meðal annars í skýrslunni. Geta til að fremja og skipuleggja flókin hryðjuverk á Íslandi, sem krefjast mikils undirbúnings og samstarfs margra aðila, sé hins vegar takmörkuð.

Hins vegar geti þær aðstæður skapast hér á landi „að einstaklingar fyllist þvílíku hatri á samfélaginu eða tilteknum hópum innan þess að þeir reynist tilbúnir til að fremja óhæfuverk í nafni tiltekinnar hugmyndafræði eða trúarbragða.“ Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að sama skapi, líkt og raunin varð í Hraunbænum, „að einstaklingur gerist sekur um voðaverk án þess þó að það sé unnið af pólitískum hvötum eða í nafni tiltekinnar hugmyndafræði sem gjarnan er eitt skilgreiningaratriða um hryðjuverk. Ljóst er að hætta á slíkum verknuðum er jafnan til staðar.“

Lögreglumenn þjálfaðir og búnaður keyptur

Tilgangurinn með skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra og þeirri vinnu sem hún byggir á er sem fyrr segir að leggja mat á þær hættur sem kunna að steðja að íslensku samfélagi sem lögregla þurfi að takast á við. Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að efni þessara skýrsla hafi meðal annars verið notað til þess að þjálfa lögreglumenn í því að takast á við slíkar aðstæður og eins að kaupa búnað sem þarf til þess.

Lögreglan hafi skyldum að gegna þegar komi að öryggi borgaranna og það sé of seint fyrir hana að þjálfa lögreglumenn í því að takast á við ákveðnar aðstæður eða útvega nauðsynlegan búnað þegar þeir standi frammi fyrir þeim, öryggi fólks er í húfi og tíminn til aðgerða naumur.

mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert