Tækifæri kastað á glæ

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Styrmir Kári

Þor­steinn Víg­lunds­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, seg­ir það von­brigði að Flóa­banda­lagið, Starfs­greina­sam­bandið og VR hafi slitið kjaraviðræðum fyrr í kvöld. „Við telj­um að við séum að kasta frá okk­ur ákveðnu tæki­færi, en það er ljóst að það var ekki lengra kom­ist í þess­ari lotu,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is.

Hann seg­ir að sam­tök­in hafi í þrígang teflt fram hug­mynd­um hvernig koma mætti sér­stak­lega til móts við kröfu viðsemj­enda sinna hvað varðar hækk­un lægstu launa. 

„Við sögðum líka mjög skýrt að til þess að hægt væri að stilla slík­ar hug­mynd­ir af end­an­lega þá yrðum við að ná ein­hverri mynd á heild­ar­kostnaðar­hækk­un­ina, og þar með talið þá al­mennu pró­sentu­hækk­un sem ætti að vera á laun­um. Við kölluðum eft­ir ein­hvers­kon­ar út­spili af þeirra hálfu í þeim efn­um í ljósi þess að þeir höfðu hafnað okk­ar hug­mynd­um og við þeirra fyrstu hug­mynd­um. En þeir virt­ust ekki vera reiðubún­ir til þess og þá var eig­in­lega ekk­ert lengra kom­ist í umræðunum.“

Deiluaðilar hitt­ust fyrst á fundi í húsa­kynn­um rík­is­sátta­semj­ara í morg­un og svo aft­ur síðdeg­is. Rétt fyr­ir kl. 18 var viðræðum svo slitið. 

Aðspurður seg­ir Þor­steinn að staðan sé nú óljós.

„Málið er á borði rík­is­sátta­semj­ara en það ligg­ur ekk­ert fyr­ir hvenær verður boðað til næsta fund­ar,“ seg­ir hann. Rík­is­sátta­semj­ari muni nú meta stöðuna og sjá til þess hvort eitt­hvert svig­rúm skap­ist til frek­ari viðræðna. 

Hann seg­ir að mark­mið SA hafi ávallt verið skýrt. „Að heild­ar­kostnaður samn­ing­anna rúm­ist inn­an mark­miðs seðlabank­ans um stöðugt verðlag. Við höf­um hins veg­ar lýst því yfir að við vær­um til­bú­in til þess að horfa sér­stak­lega til lægstu laun­anna. Reyna að koma veru­lega á móts við kröf­ur í þeim efn­um, en það gæti ekki verið hvoru tveggja háar pró­sentu­breyt­ing­ar og háar krónu­tölu­breyt­ing­ar. Það yrði þá að tefla þessu tvennu ein­hvern­veg­inn sam­an, þannig að í heild sinni rúmaðist inn­an verðlags­stöðug­leika. En það bara náðist eng­inn ár­ang­ur á þeirri hliðinni,“ seg­ir Þor­steinn að lok­um.

Jólapakki sem er bara umbúðir 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert