Vill að móðirin sæti geðrannsókn

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ernir Eyjólfsson

Karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa valdið dauða fimm mánaða ungrar dóttur sinnar neitaði sök við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Maðurinn fór fram á það að móðir stúlkunnar sæti geðrannsókn og að það sé hluti af því að upplýsa málið. Þá er uppi krafa um að þinghöld verði lokuð í málinu.

Hinn 20. mars sl. greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að karlmaður á þrítugsaldri hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á andláti fimm mánaða gamallar dóttur sinnar. Þá sagði að atvikið hefði átt sér stað sunnudagskvöldið 17. mars sl. þegar stúlkan var ein heima með föður sínum.

Bráðabirgðaniðurstaða réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar benti til að barnið hefði látist af völdum blæðinga í heila eftir að hafa verið hrist harkalega, eða svokallað „shaken baby syndrome“.

Maðurinn er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar. 

Hann hefur sætt farbanni frá því hann var leystur úr gæsluvarðhaldi.

Næsta þinghald eftir áramót

Við þingfestingu málsins í morgun upplýsti verjandi mannsins um að móðirin hefði einnig haft stöðu sakbornings við rannsókn málsins og að hann skoraði á ákæruvaldið að láta fara fram geðrannsókn á henni. Réttargæslumaður konunnar mótmælti þessu og ríkissaksóknari sagðist telja að ekki væru lagaskilyrði fyrir slíkri rannsókn nema með samþykki viðkomandi. Þar sem réttargæslumaður hafi mótmælt liggi slíkt samþykki ekki fyrir.

Ekki liggur fyrir hvort verjandi mannsins muni krefjast úrskurðar um þetta atriði en það verður ljóst við næsta þinghald sem fer fram eftir áramót.

Bæði réttargæslumaður og verjandi mannsins gerðu þá kröfu að þinghöld verði lokuð í málinu. Ríkissaksóknari tók undir kröfuna, en tók fram að það væri ekki til hlífðar manninum heldur til hlífðar móðurinni og vandamönnum hennar. Krafan var tekin til úrskurðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka