DV-menn sýknaðir af kröfum Hilmars

Umfjöllun DV um Hilmar Þór á dv.is.
Umfjöllun DV um Hilmar Þór á dv.is.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag framkvæmdastjóra og ritstjóra DV af kröfum Hilmars Leifssonar sem höfðaði meiðyrðamál vegna umfjöllunar um sig í nóvember síðastliðnum. Hilmari er gert að greiða þeim sex hundruð þúsund krónur í málskostnað.

Hilmar höfðaði raunar tvö mál, eitt vegna umfjöllunar í dagblaðinu DV og annað vegna umfjöllunar á vefsvæðinu dv.isÍ hvoru máli fyrir sig krafðist hann þess að ritstjóri og framkvæmdastjóri DV greiddu eina milljón króna í miskabætur.

Meðal þeirra ummæla sem Hilmar vildi láta ómerka var sú staðhæfing að hann hefði verið meðlimur í Vítisenglum (e. Hells Angels).

Katrín Smári Ólafsdóttir, verjandi ritstjóra og framkvæmdastjóra DV, sagði við aðalmeðferð í málinu ummælin í umfjöllun DV og á dv.is ekki fela í sér ærumeiðingu, ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun í garð Hilmars Þórs. Ekki hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis, ummælin séu ekki ósönn eða tilhæfulaus. Þau ummæli sem stefnt sé vegna fjalli ekki með beinum hætti um Hilmar Þór eða séu sönn.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Hilmars, sagði DV vega alvarlega að æru Hilmars með umfjölluninni. Hann hafi ekki verið meðlimur í Vítisenglum, sem séu skilgreind sem skipulögð glæpasamtök. Hann hafi verið í Fáfni en það sé ekkert refsivert eða ólögmætt við þau samtök. „Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að þegar aðrir vildu gerast meðlimir að Hells Angels þá hafði stefnandi engan áhuga á því og hætti í samtökunum. Það verður því að teljast sannað að stefnandi var aldrei meðlimur í Hells Angels og ekkert í framlögðum gögnum stefndu sem rennir stoðum undir annað.“

Héraðsdómur féllst ekki á að um ærumeiðandi ummæli væri að ræða og sýknaði Reyni Traustason, ristjóra DV, og Jón Trausta Reynisson, framkvæmdastjóra sama blaðs, af öllum kröum í málinu.

Frétt mbl.is: Vítisenglar hentuðu ekki Hilmari

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert