Fagna úttekt á hjúkrunarheimilum

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. mbl.is/Golli

Stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) fagnar tillögu heilbrigðisráðherra um úttekt á rekstrarstöðu hjúkrunarheimila, sem kynnt var í fjölmiðlum um helgina og leggur áherslu á að úttektin nái til allra 29 öldrunarstofnana innan SFV. Stjórnin lýsir sig reiðubúna til samstarfs við ráðuneytið um framkvæmd úttektarinnar og eru samtökin tilbúin að tilnefna þrjá reynda einstaklinga til að taka þátt í þeirri vinnu.  Innan samtakanna hefur ítarleg úttekt verið unnin hjá a.m.k. einni öldrunarstofnun og mun sú vinna geta nýst við framkvæmd hinnar nýju úttektar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

 Stjórn SFV ítrekar það sem hefur komið fram í umræðum undanfarna daga um að daggjaldagrunnur öldrunarstofnana er of lágur og nauðsyn þess að hækka hann umfram verðlagsbreytingar.  Jafnframt lýsir stjórn SFV yfir áhyggjum vegna fjárhagsstöðu Sunnuhlíðar og bendir á að niðurstaða úttektar sem kemur til með að taka nokkra mánuði mun væntanlega koma of seint fyrir þá sem reka Sunnuhlíð í dag.

 „Stjórn SFV vill því hvetja heilbrigðisráðherra til að flýta sem mest vinnu við úttekt á stöðu hjúkrunarheimila og koma í framhaldinu fram með raunhæfar lausnir að bættum rekstrarskilyrðum hjúkrunarheimila. Með því verði komið í veg fyrir að fleiri hjúkrunarheimili lendi í sömu sporum og Sunnuhlíð, með tilheyrandi óöryggi fyrir heimilisfólk, starfsfólk og aðstandendur,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert