„Það yrði öllum sagt upp“

Ráðherra segir að ríkið muni tryggja öryggi íbúa Sunnuhlíðar
Ráðherra segir að ríkið muni tryggja öryggi íbúa Sunnuhlíðar mbl.is/Rósa Braga

Á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi búa um 70 eldri borgarar, en Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir að framtíð íbúanna verði tryggð, þrátt fyrir rekstrarerfiðleika heimilisins.

„Við verðum fyrst og fremst að hugsa um þá öldruðu einstaklinga sem eru á Sunnuhlíð. Þeir eru þar á ábyrgð ríkisins og það verður að gera þeim mögulegt að dvelja á því heimili þar sem fólkið býr. Ef staðan kallar á úrræði til að fólkið á Sunnuhlíð sé öruggt á sínu heimili, að svo miklu leyti sem það snýr að ríkinu, þá munum við að sjálfsögðu tryggja það.“

„Það yrði öllum sagt upp,“ segir Guðjón Magnússon, formaður stjórnar Sunnuhlíðar, spurður um hvað muni gerast ef velferðarráðuneytið svarar ekki erindi stjórnarinnar á morgun, en 140 manns starfa á hjúkrunarheimilinu í 83 stöðugildum. „Ráðherra lýsti því yfir að hann myndi ábyrgjast það að íbúarnir þyrftu ekki að óttast neitt. Ég treysti honum og hans orðum,“ segir Guðjón í umfjöllun um málefni Sunnuhlíðar í Morgunblaðinu í dag.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að öðrum hjúkrunarheimilum hafi verið boðið að taka yfir rekstur Sunnuhlíðar, en þau hafnað því boði. Samkvæmt upplýsingum blaðsins mun velferðarráðuneytið funda með stjórn Sunnuhlíðar í vikunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert