Filippseyingar á Íslandi vilja sýna þakklæti sitt í verki, fyrir þann samhug sem Íslendingar sýndu löndum þeirra í kjölfar hamfarafellibylsins Haiyan. Næstu daga ætla þeir að vera á Lækjartorgi og bjóða gestum og gangandi upp á faðmlag eða handaband og svo munu jafnvel fylgja kökur og smágjafir með.
Knúsið er liður í sérstakri Þakkarviku sem brottfluttir Filippseyingar um allan heim efna til nú í vikunni. Táknrænt er að Filippseyingar á Íslandi ætla að byrja sína þakkargjörð þann 18. desember, sem er alþjóðlegur dagur farandverkafólks.
Sjá Facebook-síðu viðburðarins
Rúmur mánuður er nú liðinn síðan stærsti fellibylur sem mælst hefur í sögunni gekk yfir Filippseyjar og lagði stór svæði í rúst. Ástandið er enn mjög erfitt og enn finnast um 8-10 mannslík á dag. Tala látinna stendur nú í rúmlega 6000, en mun án efa hækka þar sem 1779 er enn saknað.
Yfir 4 milljónir manna eru heimilislausar og segir forseti Filippseyja, Benigno Aquino, að áætlað sé að um 3 milljarða dala þurfi til að endurreisa samfélagið úr rústunum.
„Þetta lagast ekki á einni nóttu og það er talað um að það muni taka allt að þrjú ár áður en hlutirnir komast í sama horf. Ástandið er víða skelfilegt og sérstaklega sárt fyrir þá sem ekki hafa þak yfir höfuðið um jólin,“ segir Lilja Védís Hólmsdóttir, talsmaður Íslandsdeildar Enfid, sem eru samtök Filippseyinga í Evrópu.
Ljóst er að erfið jól eru framundan hjá mörgum Filippseyingum. Lilja segir þó að neyðaraðstoðin sem borist hefur alls staðar að sé ómetanleg. Íslendingar hafa lagt yfir 60 milljónir að mörkum í gegnum neyðarsafnanir UNICEF og Rauða krossins. Þess má geta að safnanir standa enn yfir, enda mikið verk fyrir höndum.
„Sú mikla hjálp sem við höfum fengið frá gestgjafaþjóðum okkar er yfirþyrmandi svo sú hugmynd kom upp að gera eitthvað til að þakka fyrir okkur,“ segir Lilja Védís.
Hún bendir á að yfir 800.000 Filippseyingar eru búsettir víðsvegar um Evrópu. Þar af eru um 1.500 á Íslandi og 70% þeirra eiga uppruna á hamfarasvæðunum þar sem fellibylurinn gekk á land.
Að sögn Lilju kom hugmyndin að Þakkarvikunni upp á Skype-fundi Enfid-samtakanna fyrir stuttu, þegar rætt var um þann mikla hlýhug sem Filippseyingar fundu fyrir í alþjóðasamfélaginu. Önnur félög Filippseyinga á Íslandi, FICOM og MUTYA, taka einnig þátt.
„Íslendingar hafa hjálpað okkur svo mikið, í alvöru, svo virkilega mikið. Okkur langar til að taka í hendurnar á fólki og faðma það. Samtök erlendra kvenna á Íslandi (W.O.M.E.N.) ætla líka að vera með okkur á laugardaginn og gefa litlar gjafir.“
Filippseyingar ætla að vera á Lækjartorgi dagana 18. - 22. desember og þakka vegfarendum og almenningi fyrir sig.
Sjá einnig: Treysta á gott hjartalag Íslendinga