Fimm stéttarfélög starfsmanna sem starfa á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi hvetja heilbrigðisráðherra til þess að leysa mál Sunnuhlíðar farsællega fyrir íbúa og starfsmenn, án tafar.
Félögin eru Efling stéttarfélag, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag sjúkraþjálfara, SFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Sjúkraliðafélag Íslands. Stjórnendur heimilisins hafa lýst því yfir að þau neyðist til að segja starfsfólki upp störfum ef þau fái ekki úrlausn hjá stjórnvöldum fyrir þann tíma.
Félögin lýsa yfir þungum áhyggjum af rekstrarstöðu Sunnuhlíðar, sem virðist vera á leiðinni í þrot. „Málefni aldraðra eru óumdeilanlega á ábyrgð ríkisins og það er stjórnvalda að tryggja jafnvægi og öryggi þessa hóps, án undanbragða. Ef ríkið tekur ekki við rekstri Sunnuhlíðar munu íbúar þar missa heimili sín og fjölmargir starfsmenn missa atvinnu sína. Stjórnendur Sunnuhlíðar hafa ítrekað vakið athygli á erfiðri rekstrarstöðu heimilisins án árangurs. Skapast hefur óviðeigandi ástand fyrir starfsmenn og íbúa heimilisins.
Það er með öllu ólíðandi að málið skuli vera komið á þetta stig og útlit fyrir að óvissan muni hanga yfir íbúum og starfsmönnum yfir hátíðarnar. Rekstur Sunnuhlíðar er kominn í þrot, stjórnvöld þurfa að taka við sér og axla ábyrgð sína. Félögin hvetja heilbrigðisráðherra til þess að leysa mál Sunnuhlíðar farsællega fyrir íbúa og starfsmenn, án tafar.“