Freistað verður þess að ná samningum í makríldeilunni á fundi sem boðaður hefur verið á milli strandríkjanna 15. janúar næstkomandi. Þetta kom fram í máli Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í gær að afloknum fundi í sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins.
Damanaki hafði áður gert sér vonir um að hægt yrði að semja um makrílveiðarnar fyrir áramót en nú er endanlega ljóst að það verður ekki raunin. Hún fundaði í Færeyjum með þarlendum ráðamönnum í síðustu viku og lagði þá fram tilboð um lausn makríldeilunnar sem þeir síðan höfnuðu. Fréttir herma að Færeyingum hafi verið boðin 11,9% makrílkvótans sem er sama hlutfall og Evrópusambandið bauð Íslendingum í haust. Íslensk stjórnvöld munu hafa tekið vel í þær hugmyndir en Færeyingar hafa hins vegar krafist hærra hlutfalls og að fá meira en Íslendingar.
„Evrópusambandið og Ísland eru sammála um ákveðna tillögu um skiptingu makrílkvótans á milli strandríkjanna á næsta ári en Færeyjar hafa hafnað tilboðum sambandsins,“ hefur færeyski fréttavefurinn Portal.fo eftir Damanaki á blaðamannafundinum. Ennfremur að jafnvel þó samningar næðust ekki á fundinum í janúar myndi Evrópusambandið halda sig við sjálfbærar veiðar enda væri það forsenda þess að sambandið gæti gripið til refsiaðgerða gegn öðrum ríkjum fyrir að stunda ósjálfbærar veiðar.