Fundur stjórnar hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra fór fram í morgun. Guðjón Magnússon, formaður stjórnar Sunnuhlíðar, segir að ekkert verði gefið upp um hvað fór fram á fundinum en gefin verði út sameiginleg yfirlýsing stjórnar og ráðherra á morgun.
Guðjón segir að dagurinn í dag verði notaður til að vinna í málum. Guðjón gaf það út á dögunum að segja þyrfti upp öllum 140 starfsmönnum Sunnuhlíðar ef ráðherra grípi ekki inn í en Sunnuhlíð glímir við gríðarlegan rekstrarvanda. „Ráðherra lýsti því yfir að hann myndi ábyrgjast það að íbúarnir þyrftu ekki að óttast neitt. Ég treysti honum og hans orðum,“ sagði Guðjón.