Lögreglurannsókn á máli hjúkrunarfræðings, sem grunaður er um mistök eða vanrækslu í starfi sem leiddi til þess að maður lést á gjörgæsludeild Landspítalans í október á síðasta ári, er nú lokið. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Málið er komið á borð ríkissaksóknara og mun koma í ljós á næstunni hvort gefin verði út ákæra í málinu eða ekki. Það verður þá í fyrsta skipti sem heilbrigðisstarfsmaður á Íslandi er ákærður fyrir manndráp af gáleysi, segir enn fremur í fréttinni.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir í samtali við Fréttablaðið, starfsmenn spítalans hafa brugðist hárrétt við þegar upp kom grunur um mistök.
„Starfsmenn létu vita af atvikinu og um leið hófst innri rannsókn hér á spítalanum. Þeirri rannsókn er lokið og kom í ljós að samverkandi þættir urðu þess valdandi að mistök urðu sem við höfum brugðist við með umbótum. Staða hjúkrunarfræðingsins í málinu er nýr veruleiki fyrir okkur og gríðarlegt áfall fyrir alla.“