Heilbrigðisráðherra og stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna sem rekur hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi vinna nú að því að ríkið yfirtaki rekstur hjúkrunarheimilisins tímabundið frá næstu áramótum. Þetta var niðurstaða fundar ráðherra með stjórninni í gær, 18. desember. Þar var jafnframt lögð áhersla á að þjónusta við íbúa heimilisins yrði óbreytt og sömuleiðis réttarstaða starfsmanna við aðilaskiptin.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu velferðarráðuneytisins og Sunnuhlíðarsamtakanna í Kópavogi.
Hjúkrunarheimilið er sjálfseignarstofnun sem var sett á fót árið 1979 af níu klúbbum og félögum í Kópavogi en heimilið sjálft tók til starfa árið 1982. Á heimilinu eru 73 hjúkrunarrými og 18 dagdvalarrými. Í nálægð við hjúkrunarheimilið reka Sunnuhlíðarsamtökin rúmlega 100 íbúðir fyrir aldraða. Rekstur íbúðanna er aðskilinn rekstri hjúkrunarheimilisins en íbúar þeirra hafa hins vegar getað notið tiltekinnar þjónustu á hjúkrunarheimilinu. Sú þjónusta mun áfram standa íbúunum til boða eftir aðilaskiptin.
Þann 11. desember síðastliðinn óskaði stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna þess með bréfi að Kópavogsbær eða ríkissjóður tæki að sér rekstur heimilisins vegna rekstrarerfiðleika. Áður höfðu átt sér stað viðræður Sunnuhlíðarsamtakanna, Kópavogsbæjar og velferðarráðuneytisins sem hófust í lok síðasta árs um rekstrarvanda heimilisins en þær leiddu ekki til niðurstöðu. Á fundi bæjarráðs Kópavogs 12. desember var bókað að ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimilisins hvíldi á ríkinu. Erindi stjórnarinnar var þannig í reynd vísað áfram til heilbrigðisráðherra og varð niðurstaðan sú sem að framan greinir, segir í fréttatilkynningunni.
Þar segir að öll áhersla verði lögð á að engin röskun verði á starfsemi hjúkrunarheimilisins og þjónustu við þá íbúa sem þar búa við aðilaskiptin eftir áramót. Á fundi heilbrigðisráðherra með stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna í gær, 18. desember, kom fram að á vegum ráðuneytisins verður vandi hjúkrunarheimila skoðaður heildstætt.
Miðað er við að rekstur Sunnuhlíðar verði aðeins tímabundið á hendi ríkisins og stefnt að því að finna heimilinu nýjan rekstraraðila til lengri tíma litið.
Stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna hefur óskað eftir því að velferðarráðuneytið komi að viðræðum um leiðir til að takast á við uppsafnaðar skuldir vegna rekstrar hjúkrunarheimilisins og hefur ráðuneytið fallist á slíkar viðræður.