Undirbúa Fernöndu fyrir niðurrif

Flutningaskipið Fernanda bíður nú örlaga sinna í Helguvíkurhöfn, en þangað var það flutt í gær frá Njarðvík. Í dag hefur verið unnið að því að færa jarðveg að skipinu og búa til vinnupall í kringum það. 

Að sögn Einars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Hringrásar, er verið að undirbúa skipið undir niðurrif, en hann vonast til að sú vinna geti hafist eftir helgi. Nú vinni menn að því að skapa góð skilyrði til að búta niður skipið. 

Eldur kom upp í Fernöndu í lok október þegar skipið var statt út af Vestmannaeyjum. Eftir að áhöfninni var bjargað var skipið dregið til Hafnarfjarðar en út aftur þegar eldurinn blossaði upp á ný. Að lokum var skipið dregið til Grundartanga þar sem olíu og olíumenguðum sjó var dælt úr því. 

Undanfarnar vikur hefur skipið verið staðsett í Njarðvík en að sögn Einars var tíminn nýttur til að losa það af spilliefnum og unnið að því að fá starfsleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert