Bauð Færeyingum fjögurra ára samning

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is

Sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, Maria Damanaki, bauð Færeyingum samning til fjögurra ára í síðustu viku þegar hún heimsótti Færeyjar og ræddi við færeyska ráðamenn. Þetta kemur fram á færeyska fréttavefnum Portal.fo og vísað þar í ónafngreindan heimildarmann. Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hafi hins vegar aðspurður ekki viljað tjá sig um þær upplýsingar.

Fram hefur komið að tilboð Damanaki til Færeyinga hafi ennfremur hljóðað upp á 11,9% árlegs makrílkvóta sem er það sama og fréttir hafa hermt að Evrópusambandið hafi boðið Íslendingum. Fréttir herma að íslensk stjórnvöld hafi fallist á þá hlutdeild með óformlegum hætti. Færeyingar höfnuðu hins vegar tilboði Damanakis í byrjun þessarar viku, ekki síst á þeim forsendum að þeir vildu hærri hlutdeild en Íslendingar. Ennfremur segir í fréttinni að tilboðið til Færeyinga hafi gengið út á að mögulegur samningur um makrílveiðarnar yrði hluti af stærri samningi. Þar er líklega vísað til þess að samningar um síld og kolmunna yrðu teknir inn í myndina.

Portal.fo segir ennfremur frá því að Vestergaard og Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, hafi verið kallaðir fyrir utanríkismálanefnd færeyska lögþingsins í dag þar sem nefndin taldi þá ekki hafa haft nægt samráð fyrir sig þegar tilboði Damanakis var hafnað.

Þá er staðfest af Sigurgeiri Þorgeirssyni, aðalsamingamanni Íslands í makríldeilunni, á fréttavef færeyska ríkisútvarpsins Kringvarp.fo að samkomulag liggi fyrir á milli Íslands og Evrópusambandsins í makríldeilunni. Hann hafi hins vegar ekki viljað staðfesta að sambandið hafi boðið Íslendingum 11,9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert