Viðræður hófust í september síðastliðnum á milli embættismanna utanríkisráðuneytisins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um það hvernig haldið yrði á málum varðandi verkefni fjármögnuð með IPA-styrkjum frá sambandinu í ljósi ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að gera hlé á viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið.
Framkvæmdastjórnin hafði áður lýst því yfir síðastliðið sumar að engin ný verkefni yrðu styrkt og sama gilti um fyrirhuguð verkefni sem samningar hefðu ekki verið undirritaðir um. Viðræðurnar sem hófust í september snerust fyrir vikið um yfirstandandi verkefni þar sem samningar höfðu verið undirritaðir. Nokkrir fundir voru haldnir um málið í haust að sögn Margrétar Gísladóttur, aðstoðarmanns Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, en framkvæmdastjórnin tilkynnti síðan skyndilega með bréfi dagsettu 2. desember síðastliðinn að hún hefði ákveðið að hætta með öllu að styrkja verkefnin.
Gert ráð fyrir samráði um styrkina
Veiting IPA-styrkjanna, sem ætlað er að undirbúa umsóknarríki fyrir inngöngu í Evrópusambandið með því að aðlaga þau að regluverki sambandsins, byggði á sérstökum rammasamningi sem gerður var á milli síðustu ríkisstjórnar Íslands og Evrópusambandsins og tók gildi sumarið 2012. Þar er gert ráð fyrir að ágreiningur um styrkveitingarnar sé leystur með samkomulagi „í vinsemd með samráði“ en náist ekki samkomulag geti hvor aðili lagt málið í gerðadóm. Ennfremur er heimilt að segja samningnum einhliða upp með tilkynningu en þá skuli yfirstandandi verkefni kláruð.
Fjallað er um viðræðurnar á milli utanríkisráðuneytisins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í skýrslu stækkunardeildar sambandsins fyrir árið 2013 sem kom út um miðjan október en þá voru þær enn í gangi. Þar er ítrekað að framkvæmdastjórnin hafi ákveðið að styrkja ekki ný verkefni og það sama eigi við um verkefni sem samningar hafi ekki verið undirritaðir um. „Hvað varðar verkefni þar sem samningar hafa þegar verið undirritaðir vinnur framkvæmdastjórnin að því meta hvert verkefni í samstarfi við íslensk stjórnvöld til þess að ákveða hvaða verkefni verða styrkt áfram.“
Ekkert benti til einhliða ákvörðunar
Margrét segir aðspurð að ekkert í viðræðunum hafi gefið til kynna að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi skyndilega ákveða að hætta viðræðunum og taka einhliða þá ákvörðun að hætta að styrkja þau verkefni sem samningar hefðu verið undirritaðir um. Sú ákvörðun hafi fyrir vikið komið utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu enda verið fyrirvaralaus. Fyrir vikið hafi ráðuneytið mótmælt vinnubrögðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í málinu.
Framkvæmdastjórnin hefur gefið þá skýringu að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að réttlæta áframhaldandi styrkveitingar í ljósi þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að gera hlé á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið enda væri tilgangur styrkjanna að undirbúa ríki fyrir slíka inngöngu með því að aðlaga þau að löggjöf, stöðlum og stefnum sambandsins. Það væri ennfremur ekki í samræmi við góða fjármálastjórn.
Segjast ekki hafa hætt viðræðunum
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafa sagt að framganga Evrópusambandsins varðandi IPA-styrkina bendi til þess að sambandið telji Ísland ekki lengur umsóknarríki. Sigmundur sagði þannig á Alþingi 16. desember síðastliðinn að túlka mætti einhliða ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta öllum slíkum styrkveitingum til Íslands sem skilaboð um að sambandið liti svo á að viðræðunum um inngöngu landsins væri lokið.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur brugðist við þeim ummælum forsætisráðherra og lýsir talsmaður hennar, Pia Ahrenkilde Hansen, því yfir í bréf til mbl.is að sambandið hafi ekki hætt viðræðum um inngöngu Íslands og sé reiðubúið að hefja þær að nýju þegar og ef íslensk stjórnvöld vilja halda þeim áfram. Hins vegar er ítrekað að tilgangur IPA-styrkjanna sé að tilgangur IPA-styrkjanna sé að undirbúa ríki fyrir inngöngu í Evrópusambandið með því að aðlaga þau að regluverki sambandsins. Grundvöllur frekari styrkveitinga til Íslands sé því ekki lengur fyrir hendi.
Ekki krafist endurgreiðslu styrkja
Tekið er fram í bréfinu að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar Evrópusambandsins hafi verið tilkynnt íslenskum stjórnvöldum 2. desember síðastliðinn. Ennfremur kemur fram í bréfinu að ekki verði gerð krafa um endurgreiðslu þeirra IPA-styrkja sem þegar hafi verið greiddir út en í rammasamningnum um styrkina er ekki heimilt fyrir slíkri kröfu. Þá muni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bæta þann lögmæta kostnað sem skapast hafi í tengslum við yfirstandandi verkefni fram að þeim tíma sem samningum um þau er rift í samræmi við ákvæði samninganna.
Tekið er fram að framkvæmdastjórnin virði fyllilega afstöðu ríkisstjórnar Íslands um að gera hlé á viðræðunum um inngöngu landsins í Evrópusambandið. Talsmaður framkvæmdastjórnarinnar leggur hins vegar áherslu á að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hafi þrátt fyrir þá ákvörðun ekki verið dregin til baka.