Gáfu VMA 20 milljónir króna

Frá vinstri: Gunnar Larsen framkvæmdastjóri Frosts, Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins, …
Frá vinstri: Gunnar Larsen framkvæmdastjóri Frosts, Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins, Ágúst Torfi Hauksson, formaður skólanefndar VMA, Hjalti Jón Sveinsson skólameistari, Baldvin B Ringsted kennslustjóri tæknisviðs VMA og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samherji, Slippurinn og Kælismiðjan Frost afhentu Verkmenntaskólanum á Akureyri 20 milljónir króna að gjöf í gær, til kaupa á kennslutækjum fyrir málm- og véltæknisvið skólans.

„Góð og öflug verk- og tæknimenntun er hverju samfélagi mikilvæg og sennilega aldrei eins og í dag,“ sagði Gunnar Larsen, framkvæmdastjóri Frosts, þegar hann tilkynnti um gjöfina á hátíð Samherja í KA-heimilinu í gær. Samherji lagði fram 10 milljónir en Slippurinn og Frost 5 milljónir hvort fyrirtæki.

Á næsta ári verður 30 ára afmæli VMA fagnað. „Skólinn hefur frá upphafi útskrifað málmiðnaðarmenn og vélstjóra. Margir þessara manna hafa stundað starfsnám sitt hjá Kælismiðjunni Frost, Samherja eða Slippnum. Sumir hafa ílengst hjá þessum fyrirtækjum en aðrir haldið annað að námi loknu eins og gengur. VMA hefur þannig verið okkur ómetanleg uppspretta vel menntaðs fólks sem sinnir eftirsóknarverðum og vel launuðum störfum, sem skila miklu til samfélagsins,“ sagði Gunnar Larsen.

Hann bætti við að ekki bara VMA fagnaði stórafmæli um þessar mundir: „Samherji varð 30 ára á árinu, Kælismiðjan Frost verður 20 ára nú um áramótin og á síðasta ári voru liðin 60 ár frá stofnun Slippstöðvarinnar, sem er fyrirrennari Slippsins.  Í tilefni af þessum tímamótum viljum við gjarnan leggja okkar af mörkum til að efla verknám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Þetta viljum við gera með því að styrkja málm- og véltæknisvið skólans til kaupa á kennslutækjum,“ sagði Gunnar Larsen.

Hugsið um heiminn sem mögulegt atvinnusvæði

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagðist stoltur af því að vegna aðkomu félagsins að rekstri fyrirtækja í öðrum löndum hefur tekist að ná hingað til lands fjölda verkefna á sviði nýsmíða, viðhalds og endurbóta á skipum. „Fyrr á þessu ári skrifuðu Slippurinn og Kælismiðjan frost undir stærstu samninga sem iðnfyrirtæki á Akureyri hafa gert við erlenda aðila. Annars vegar er um að ræða frystikerfi og vinnslubúnað fyrir tvö skip sem eru í smíðum í Tyrklandi fyrir erlend fyrirtæki sem tengjast Samherja. Hins vegar samning um að endurnýja vinnslubúnað í skipi DFFU, dótturfélags Samherja í Þýskalandi. Þessi samningar jafngilda tugum ársverka sem hafa veruleg áhrif til góðs á atvinnumál á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er í samræmi við þá stefnu sem Samherji hefur fylgt frá upphafi,“ sagði Þorsteinn Már.

Forstjóri Samherja sagðist gjarnan vilja sjá þetta gerast í auknum mæli. „Þessi fyrirtæki, Slippurinn og Kælismiðjan Frost, hafa smám saman fært sig upp á skaftið og öðlast sjálfstraust og styrk til þess að sækja verkefni í auknum mæli út um allan heim og verið að draga fleiri íslensk fyrirtæki með sér í þessa atvinnusókn. Þannig á ungt fólk að hugsa þegar það hefur nám á málm- og véltæknisviði VMA. Það svið hefur nú alla burði til að verða öflugasta svið sinnar tegundar á landinu. Þeir sem útskrifast þaðan mega gjarnan líta á allan heiminn sem mögulega sitt atvinnusvæði. Fyrirtæki hér eiga að sækja óhikað í slík verkefni og verða alþjóðlegri en þau eru í dag. Þau hafa allt til brunns að bera. Þetta hefur Samherji gert með góðum árangri,“ sagði Þorsteinn Már.

Samherji veitir 80 milljónir í styrki

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert