Evrópusambandið hefur upplýst Norðmenn um tilboð sem sambandið hefur gert Íslendingum og Færeyingum um mögulega lausn á makríldeilunni. Þetta sagði Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, á blaðamannafundi eftir fund í ráðherraráði sambandsins á dögunum.
Greint er frá þessu í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskaren í dag. Haft er eftir norska sjávarútvegsráðherranum, Elisabeth Aspaker, að það sé rétt að hún hafi verið upplýst um málið af Damanaki en einungis eftir að tilboðin höfðu verið lögð fram. Lokapunktur viðræðnanna sem staðið hafi yfir verði á viðræðufundi sem fyrirhugaður er 15. janúar næstkomandi. Evrópusambandið vilji gjarnan ná samningum en ekki sama hvað það kosti.
Færeyingum boðið að veiða í lögsögu ESB
„Ég er þeirrar skoðunar að við höfum gert Íslendingum og Færeyingum góð tilboð. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá Íslandi við tillögunni og höfum sameiginlegan skilning á málinu en það er ekki svo gott í tilfelli Færeyinga. Enn sem komið er,“ er haft eftir Damanaki í fréttinni. Hún lagði ennfremur áherslu á að Evrópusambandið ætli sér að hafa áfram samráð við Norðmenn um lausn á deilunni.
Damanaki sagði einnig að Norðmenn hefðu lagt fram eigin tillögu að lendingu í makríldeilunni en í samtali við Fiskaren vildi Aspaker ekki tjá sig um efni þess. Fram kemur í fréttinni að Evrópusambandið hafi boðið Íslendingum og Færeyingum 11,9% árlegs makrílkvóta og að Færeyingum hafi ennfremur verið boðið að veiða 40% af kvóta sínum í lögsögu sambandsins.
Þá segir að áður hafi Evrópusambandið og Noregur boðið Íslendingum 8% makrílkvótans og Færeyingum 7,5%. Fiskaren hafi heimildir fyrir því að norsk stjórnvöld séu reiðubúin að hækka þau tilboð eitthvað en vilji ekki fara upp í 11,9%. Haft er eftir Audun Maråk, framkvæmdastjóra Samtaka norskra útgerðarmanna, að Evrópusambandið hafi boðið Íslendingum allt of stóra hlutdeild í makrílkvótanum.
Norðmenn ekki bundnir af tilboðunum
„Ég skil það vel að Íslendingar séu ánægðir með tilboðið sem þeir hafa fengið frá sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins,“ segir Maråk í samtali við Fiskaren. Hann hafi fulla trú á að íslensk stjórnvöld eigi eftir að samþykkja tilboðið. Hann leggur þó áherslu á að Norðmenn séu ekki bundnir af tilboðum Damanakis og lýsir ennfremur efasemdum sínum um að hún hafi nægan stuðning innan Evrópusambandsins til að leggja þau fram.
Haldi Evrópusambandið fast við tilboð sín til Íslands og Færeyja verði sambandið að taka þá kvótaskerðingu sem það hefur í för með sér á sig. Það þýði ekki að krefjast þess að Norðmenn taki hana á sig.