Harðfiskur og konfekt á hamfarasvæðinu

Magna Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Magna Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Ljósmynd/RKÍ

„Fólkið hérna er alveg ótrúlegt. Svo jákvætt, hörkuduglegt og brosmilt,“ segir Magna Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur Rauða krossins í tjaldsjúkrahúsi á hamfarasvæði   Filippseyja. Þar eru jólin haldin mitt í eyðileggingunni eftir fellibylinn, en allt er á floti eftir rigningar síðustu daga.

Fjórir sendifulltrúar Rauða kross Íslands eru á Filippseyjum um jólin. Þau hittust öll í gær, á aðfangadagskvöld, og áttu notalega stund saman ásamt fleiri hjálparstarfsmönnum. 

Milljónir manna halda jól í neyðarskýlum

„Við héldum svona starfsmanna-jólapartý í gær þar sem var matur og kökur eins og hægt var að finna. Við höfum borðað þurrmat núna þar til fyrir nokkrum dögum, þannig að það var kærkomin tilbreyting að fá alvöru mat,“ segir Magna.

Íslendingarnir voru líka með konfekt og harðfisk með sér og fengu því svolitla stemningu að heiman.

Þau dvelja á Samaraeyjum, þar sem ástandið er einna verst því þar gekk fellibylurinn á land ásamt flóðbylgju og lagði nánast öll mannvirki í rúst. Um 4,4 milljónir manna misstu heimili sín og hafast því margir við í neyðarskýlum og tjöldum.

„Fólk reynir að búa sér til sinn kofa, úr bárujárni og tjalddúkum, en aðstæður eru ekki góðar fyrir það fólk, sérstaklega ekki núna þegar það rignir og allt er á floti,“ segir Magna.

Bros á vör í miðri eyðileggingunni

Engu að síður reynir fólk að halda sín jól, en bróðurhluti Filippseyinga er kaþólskur. „Þau byrjuðu að fagna á miðnætti í gær, fóru í kirkju klukkan 23 og svo hittist fjölskyldan og borðar saman og opnar pakka eftir miðnætti,“ segir Magna.

Hún segir einstakt að upplifa jákvæðni Filippseyinga á svo erfiðum tímum. „Mér finnst það alveg með ólíkindum að labba hér um götur. Fólk kemur og spjallar við mann, þakkar fyrir og brosir. Allir reyna að gera sitt, þrífa götur og byggja upp heimilin og samfélagið með bros á vör. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann kvarta, fólk heldur bara áfram og er þakklátt fyrir það sem það þó hefur. Það er magnað að fylgjast með þeim, þegar maður sér þessa eyðileggingu allt um kring.“

Ljóst er að gríðarlegt verk er fyrir höndum við uppbyggingu á Filippseyjum, en Magna segist sjá mikinn mun milli vikna þökk sé öflugu hreinsunarstarfi. Hinsvegar hafi margir misst lifibrauð sitt í landbúnaði og óvíst hvenær og hvernig fólk mun aftur geta haft í sig og á.

Ekkert mál að vera fjarri á jólunum

Þetta er í fjórða sinn sem Magna tekur að sér verkefni á vettvangi fyrir Rauða krossinn. Hún vann m.a. á tjaldsjúkrahúsi eftir jarðskjálftann á Haítí og við útfærslu neyðarheilsugæslu í Austur-Afríku. 

Í þetta sinn er hún yfirhjúkrunarfræðingur á tjaldsjúkrahúsi sem norski Rauði krossinn rekur. Þar er rekin bæði bráðamóttaka og skurðstofa. Aðspurð hvort hún hafi þá vitað algjörlega út í hvað hún var að fara, þegar hún lagði af stað til Filippseyja, segir Magna að hún hafi verið undirbúin en aðstæður komi þó alltaf á óvart. 

Hún segist ekki hafa verið hikandi yfir að vera á hamfarasvæði í neyðarstarfi yfir jólin.

„Auðvitað á maður ættingja og vini sem væri gaman að halda jól með, en maður lætur það ekki stoppa sig. Ég er bara glöð að geta fengið að hjálpa og það er gott fólk hér sem gaman er að fá að upplifa jólin með.“

Aremandahan fjölskyldan undirbýr jólamáltíðina við neyðarskýlið þar sem þau búa …
Aremandahan fjölskyldan undirbýr jólamáltíðina við neyðarskýlið þar sem þau búa í Tacloban. AFP
Alejandro Guande, 41 og 3 ára dóttir hans Alia, 3 …
Alejandro Guande, 41 og 3 ára dóttir hans Alia, 3 skreyta jólatré við neyðarskýli í Tacloban. AFP
Filippseysk börn syngja fyrir jólamessu í kapellu í Leyte.
Filippseysk börn syngja fyrir jólamessu í kapellu í Leyte. AFP
Þýskir hjálparstarfsmenn syngja jólasálma fyrir eftirlifendur fellibylsins á Filippseyjum á …
Þýskir hjálparstarfsmenn syngja jólasálma fyrir eftirlifendur fellibylsins á Filippseyjum á aðfangadag. AFP
Ungur eftirlifandi fellibylsins kveikir á kerti við gröf vinar.
Ungur eftirlifandi fellibylsins kveikir á kerti við gröf vinar. AFP
Gríðarleg eyðilegging er á hamfarasvæðunum.
Gríðarleg eyðilegging er á hamfarasvæðunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert