Hættustig vegna snjóflóða

Bolungarvík. Myndin er úr safni.
Bolungarvík. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristján Jónsson

Óvissustig er á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Hættustig vegna snjóflóða er á Bolungarvík, utan þéttbýlis, í Hnífsdal og á Ísafirði, segir í samantekt almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um veður, færð og ástand raforkukerfis á landinu.

Nú er norðanátt á landinu, víða allhvöss, en hvassviðri eða stormur (18-23 m/s) norðvestantil. Snjókoma er norðan- og austanlands, dálítil él á Suðvesturlandi, annars úrkomulítið. Frost 0 til 5 stig. Hægt minnkandi norðanátt verður á morgun, snjókoma eða él fyrir norðan og austan, en léttskýjað sunnan heiða.

Óveður á Kjalarnesi

Óveður er á Kjalarnesi. Það eru hálkublettir á Sandskeiði og Þrengslum, hálkublettir og skafrenningur er á Hellisheiði. Hálka og óveður er á Mosfellsheiði, ófært og óveður er í Kjósarskarði, hálka eða hálkublettir eru annars víðast hvar á Suðurlandi.

Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum leiðum á Vesturlandi og éljagangur mjög víða. Hálka og stórhríð er á Holtavörðuheiði, snjóþekja og stórhríð er á Bröttubrekku. Óveður er í Staðarsveit og á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er lokað um Eyrarhlíð og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Þæfingur og stórhríð er á Gemlufallsheiði, Flateyrarvegi og í Súgandafirði og öllum mokstri á þessum vegum hefur verið hætt vegna veðurs. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært um Þröskulda, en opið er um Innstrandaveg og þar er snjóþekja, hálka og éljagangur. Snjóþekja og snjókoma er á Hálfdán og Mikladal en snjóþekja og éljagangur á Kleifaheiði. Ófært og stórhríð er frá Brjánslæk og yfir Klettisháls. Þæfingur og stórhríð í Kollafirði og þæfingur í Reykhólasveit.

Á Norðurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Éljagangur og snjókoma mjög víða. Þæfingur og skafrenningur er á Þverárfjalli og í Reykjadal. Hálka er á Ólafsfjarðarmúla og varað er við snjóflóðahættu, veginum verður lokað klukkan 22:00 í kvöld.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur en hálkublettir eru með ströndinni í Hvalnes.

Rafmagn

Hjá Orkubúi Vestfjarða komu upplýsingar kl. 09:27 um að Bolungarvíkurlína 1 (BV1, Breiðidalur - Bolungarvík) hafi leyst út kl. 08:55. Innsetning reynd án árangurs. Ekkert straumleysi fylgir þar sem flutningskerfið er hringtengt gegnum Ísafjörð. Rafmagnslaust er í Súðavík eftir að útsláttur varð á Suðavíkurlínu kl. 08:04. Línan var sett inn en einn fasi skilar sér ekki til Súðavíkur. Varaafl hefur verið sett í gang.

Með vaxandi vindi, lítið eitt hlýnandi veðri og talsvert mikilli úrkomu má reikna með vaxandi veðuráraun á línur á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, í Dölum og við Hrútafjörð allt þar í kvöld að veður fer skánandi að nýju, segir í samantekt almannavarnadeildar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert