Mikil hætta er enn á snjóflóðum utan byggðar á norðanverðum Vestfjörðum, utanverðum Tröllaskaga og Austfjörðum, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Þessum viðvörunum er beint til snjósleðamanna og annarra sem stefna á fjöll á þessum slóðum.
Áframhaldandi úrkoma er í kortunum. Norðan 8-13 m/s og él fyrir norðan og austan, en léttskýjað sunnan heiða. Austlægari átt seint í kvöld og snjókoma á SV-verðu landinu. Norðaustlæg átt 5-13 og úrkomulítið á landinu í fyrramálið.
Vaxandi austan- og norðaustanátt S- og V-til síðdegis á morgun og fer að snjóa syðst annað kvöld. Frost víða 0 til 5 stig, en kaldara í innsveitum fyrir norðan og austan í nótt og á morgun.
Hvað færð á landinu varðar þá eru hálkublettir á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum, en hálka eða hálkublettir víðast hvar á Suðurlandi.
Hálkublettir eða hálka eru á flestum vegum á Vesturlandi, þó snjóþekja frá Búðardal norður yfir Gilsfjörð. Þæfingsfærð er á Skarðsströnd en Fróðárheiði er þungfær.
Éljagangur eða skafrenningur er víða á Vestfjörðum og hálka eða snjóþekja. Mokstur í Ísafjarðardjúpi er langt kominn en einnig er verið að opna norður í Árneshrepp.
Á Norðurlandi vestra er hálka og skafrenningur eða él. Það snjóar á Norðurlandi eystra og þar er víðast hvar snjóþekja á vegum. Ólafsfjarðarmúli er opinn en þar er þó ennþá óvissustig vegna snjóflóðahættu. Þæfingsfærð er á kaflanum um Hálsa og Hófaskarð.
Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi. Nokkur hálka er niðri á Fjörðum en autt frá Djúpavogi með ströndinni suður um. Engar sérstakar lokanir eru í gildi (utan Nesjavallavegar) en víða er enn ófært. Unnið er að mokstri.