Byrjað að hvessa

mbl.is/Sigurður Bogi

Smám saman hvessir um sunnan- og vestanvert landið í dag og er heldur vaxandi skafrenningur norðvestantil, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Mesta vindröstin verður með suðurströndinni. Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum verður kominn stormur um og upp úr kl. 15 og hviður 30-35 m/s. Einnig snjókoma í Mýrdalnum í kvöld. 

Hviður allt að 40-45 m/s verða frá því seint í kvöld og fram á nóttina. Í Öræfum má einnig reikna með byljóttum vindi og hviðum 35-45 m/s frá því snemma í kvöld og til morguns.

Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum, snjóþekja á Grindavíkurvegi en hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Suðurlandi. Hálkublettir eða hálka eru á flestum vegum á Vesturlandi og sumstaðar skafrenningur.

Á Vestfjörðum er þæfingsfærð á Kleifaheiði og Klettshálsi en verið að moka. Á Ströndum er ófært úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík.

Það er hálka í Húnavatnssýslum og Skagafirði en þar fyrir austan er sumstaðar ofankoma og snjóþekja á vegum.

Þæfingsfærð er á Tjörnesi og Hólasandi. Nokkur ofankoma er á Austurlandi og þar er víðast hvar snjóþekja eða hálka. Hreindýrahópur eru nú rétt norðan við Lindarsel á Háreksstaðaleið. Vegir eru auðir frá Djúpavogi vestur á Mýrdalssand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert