Gæti komið til lokunar vegna veðurs

Stórhríð og stormur
Stórhríð og stormur mbl.is/RAX

Vegfarendur eru beðnir um að vera ekki á ferðinni undir Eyjafjöllum í kvöld og nótt, vegna spár um ofsaveður. Búast má við mjög snörpum vindhviðum, yfir 40 m/s.

Hugsanlegt er að veginum verði lokað frá Markarfljóti að Vík og jafnvel enn austar, verði veðrið með versta móti, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum og lögreglunni á Hvolsvelli er farið að blása mjög hressilega þar, en engin útköll hafa enn verið vegna veðursins. Fólk er beðið að vera ekki á ferli að tilefnislausu.

Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum er reiknað með hviðum 30-35 m/s, en ofsaveðri og vindhviður allt að 40-45 m/s frá því seint í kvöld og fram á nóttina. Einnig snjókoma í Mýrdalnum í kvöld. Í Öræfum má einnig reikna með byljóttum vindi og hviðum 35-45 m/s til morguns.

Þá er gert ráð fyrir talsverðri snjókomu suðaustanlands, austan Öræfa  í nótt og fram
á morguninn.

Þæfingsfærð og stórhríð 

Hálkublettir eru á Suðurnesjum. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði en hálka í Þrengslum en hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Suðurlandi. Þæfingsfærð og stórhríð er austan Hvolsvallar að Markarfljóti og þaðan hálkublettir og óveður að Vík.

Hálkublettir eða hálka eru á flestum vegum á Vesturlandi og víða skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja og sumstaðar strekkingsvindur og skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Gemlufallsheiði sem og í Önundarfirði. Þungfært og skafrenningur er í Súgandafirði. Þæfingsfærð og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingsfærð og óveður á Þröskuldum.

Þæfingsfærð og óveður er á Hálfdán og Mikladal og þæfingsfærð og stórhríð er á Kleifaheiði en þungfært og stórhríð á Klettshálsi. Á Ströndum er ófært úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík.

Það er hálka og sumstaðar skafrenningur í Húnavatnssýslum og Skagafirði en þar fyrir austan er sumsstaðar ofankoma og snjóþekja á vegum. Snjóþekja og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi en snjóþekja og éljagangur á Öxnadalsheiði.

Hálka er á flestum vegum á Austurlandi en sumsstaðar snjóþekja, einnig er éljagangur víða. Hreindýrahópur eru nú rétt norðan við Lindarsel á Háreksstaðaleið. Vegir eru auðir frá Djúpavogi vestur á Mýrdalssand en óveður er í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert