Ástæða er til að vara fólk við því að vera á ferðinni að óþörfu á Suðurlandi í kvöld og í nótt, einkum undir Eyjafjöllum, við Mýrdalsjökul og Öræfajökul þar sem búist er við ofsaveðri með 28 m/s eða meira.
Lögreglan á Hvolsvelli hvetur vegfarendur til að fara varlega og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu, þótt ekki sé beinlínis lokað fyrir umferð.
Vaxandi austan- og norðaustanátt er á landinu og er búist við 15-23 m/s á Suður- og Vesturlandi seint í kvöld, en 23-30 m/s í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum, við Mýrdalsjökul og Öræfajökul.
Búast má við mjög snörpum vindhviðum, yfir 40 m/s, undir Eyjafjöllum og við Öræfajökul frá því kl. 19 í kvöld og til 07 í fyrramálið.