Varað við ofsaveðri í kvöld og nótt

Vonskuveður verður á Suður- og Suðausturlandi í kvöld og nótt.
Vonskuveður verður á Suður- og Suðausturlandi í kvöld og nótt. Rax / Ragnar Axelsson

Farið er að hvessa á landinu, þar sem skil nálgast úr suðri. Veðurstofa Íslands varar við stormi, meðalvindi meira en 20 m/s sunnan- og vestantil á landinu í kvöld og fram á morgun. Búist er við ofsaveðri, með 28 m/s eða meira, seint í kvöld og í alla nótt í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöll, við Mýrdalsjökul og Öræfajökul.

Klukkan 15 í dag var austan- og norðaustan 10-18 m/s sunnan- og vestantil, en hvassast var þó 25 m/s á Stórhöfða. Vaxandi austan- og norðaustanátt verður með kvöldinu. Í kvöld fer einnig að snjóa syðst á landinu og víðar í nótt.

Upp úr hádegi á morgun lægir sunnanlands og verður þá slydda eða ringing með köflum, en allhvöss austan- og norðaustanátt um norðanvert landið fram á annað kvöld, með snjókomu eða slyddu. Hægt hlýnandi veður, hiti 0 til 5 stig sunnanlands á morgun, en minnkandi frost fyrir norðan.

Snjókoma og hvassviðri á Suðausturlandi

Víða verður skafrenningur á fjallvegum í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum er reiknað með hviðum allt að 40-45 m/s frá því seint í kvöld og fram á nóttina.

Einnig verður snjókoma í Mýrdalnum í nótt. Í Öræfum má einnig reikna með byljóttum vindi og hviðum 35-45 m/s frá því upp úr kl. 20 og til morguns.

Þá er gert ráð fyrir talsverðri snjókomu suðaustanlands, austan Öræfa í nótt og fram á morguninn.

Víða hálka á vegum

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum og snjóþekja á Grindavíkurvegi. Hálka er á Sandskeiði og í Þrengslum ásamt skafrenningi, en hálka eða hálkublettir víðast hvar á Suðurlandi.

Hálkublettir eða hálka eru á flestum vegum á Vesturlandi og sums staðar skafrenningur.

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja og sumstaðar strekkingsvindur og skafrenningur. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og óveður. Á Ströndum er ófært úr Bjarnarfirði norður í Djúpavík.

Hálka er í Húnavatnssýslum og Skagafirði en þar fyrir austan er sums staðar ofankoma og snjóþekja á vegum. 

Hálka er á flestum vegum á Austurlandi en sums staðar snjóþekja. Hreindýrahópar eru nú rétt norðan við Lindarsel á Háreksstaðaleið. Vegir eru auðir frá Djúpavogi vestur á Mýrdalssand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert