Liku Korinteli, georgískri konu sem sótti fyrst um hæli hér á landi árið 2005, hefur enn ekki borist svar frá innanríkisráðuneytinu vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum. mbl.is hefur áður greint frá því að ráðuneytið hygðist svara umsókn hennar fyrir áramót og senda Liku tilkynningu ef ekki reyndist unnt að svara umsókn hennar áður en árið er á enda.
Nú, þegar næstsíðasti dagur ársins er runninn upp, hefur Lika ekkert heyrt frá ráðuneytinu. Áður hafði hún fengið þær upplýsingar að svarið bærist henni í sumar eða í haust og nú síðast fyrir lok þessa árs, en allt lítur út fyrir að svo verði ekki.
Toshiki Toma, prestur innflytjenda, greindi fyrst frá máli Liku í aðsendri grein í Morgunblaðinu í lok október. Þar rakti hann sögu Liku og greindi frá aðstæðum hennar hér á landi. Vegna sérstakra aðstæðna getur Lika ekki framvísað þeim gögnum sem Útlendingastofnun krefst frá hælisleitendum, en allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu. Safnið brann í stríðinu árið 1992, Lika varð pappírslaus en stjórn Georgíu lét henni ekki í té nýja pappíra sem georgískum borgara.
Lika kom hingað til lands árið 2005 og sótti um hæli. Umsókn hennar var synjað af Útlendingastofnun (ÚTL) eftir hálft ár og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti útskurðinn hálfu ári síðar. Í ferli málsmeðferðar komu þær upplýsingar frá yfirvöldum Georgíu að þau gætu ekki borið kennsl á að Lika væri ríkisborgari í Georgíu. Þá sótti Lika um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2008 en fékk synjun frá ÚTL árið 2012 og var málinu áfrýjað til innanríkisráðuneytisins og bíður Lika nú enn eftir svari.
Lika hefur verið í vinnu hér á landi frá árinu 2006, en hún hefur haft takmarkað dvalar- og atvinnuleyfi fá þeim tíma. „Níu ár. Lika er búin að vera á Íslandi í næstum því níu ár. Séu talin með árin sem hún eyddi sem flóttamaður í Georgíu eru það næstum tuttugu ár. Þar sem yfirvöld í Georgíu viðurkenna ekki Liku sem georgískan ríkisborgara er ekki hægt að senda hana til baka, raunar til einskis lands. Hún festist hér á Íslandi og er í rauninni orðin ríkisfangslaus,“ skrifaði Toshiki í grein sinni.
Lika hefur unnið hér á landi og greitt skatta í mörg ár hefur ekki aðgang að velferðarkerfinu, ekki einu sinni sjúkratryggingakerfinu. Hún getur hvorki öðlast ökuréttindi né sótt um bankalán, þar sem hún hefur ekki lögheimili hérlendis og borgaraleg réttindi hennar eru mjög takmörkuð.
Frétt mbl.is: Lika bíður enn eftir svari
Frétt mbl.is: Býr við mikla óvissu hér á landi
Frétt mbl.is: Lika fær svar fyrir áramót
Frétt mbl.is: Ríkisfangslaus og án réttinda