Enn er bálhvasst við Öræfajökul og undir Eyjafjöllum og búast má við mjög snörpum vindhviðum (yfir 40 m/s) fram eftir morgni. Eins er mjög hvasst á sunnanverðum Vestfjörðum og Snæfellsnesi og má búast við því að þar verði hvasst fram yfir hádegi.
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að veðrið í nótt hafi verið í takt við það sem spáð var, meðalvindhraði 25-30 metrar á sekúndu og vel yfir 40 metra á sekúndu í hviðum.
Hún segir að enn sé hvasst en fari smám saman að draga úr vindi og gera megi ráð fyrir að það verði orðið skaplegt veður eftir þrjá tíma. Strax á milli sjö og átta fer að draga úr veðri fyrir austan en fyrir vestan verður hvasst eitthvað lengur fram eftir degi.
Elín segir að spáin sé ágæt fyrir daginn í dag og fram eftir kvöldi en síðan er spáð vaxandi norðaustanátt þó svo ekki sé spáð ofsaveðri líkt og var í nótt. Það sem breytist er að það hlýnar örlítið þannig að það fylgir einhver rigning eða slydda með.
Það er norðaustanátt áfram í kortunum næstu daga að sögn Elínar og lægðir koma og fara. Hún segir að þrátt fyrir að ekki sé spáð ofsaveðri næstu daga sé engin blíða í kortunum og þó svo það sé rigning eða slydda á láglendi megi búast við skafrenningi á heiðum áfram næstu daga.
Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:
Austan og norðaustan 15-23 m/s S- og V-lands en 23-30 í Vestmannaeyjum, við Eyjafjöll, Mýrdalsjökul og Öræfajökul. Mun hægari vindur á NA-verðu landinu. Snjókoma N-til en rigning eða slydda með köflum S-lands. Fer að draga smám saman úr vindi S-lands með morgninum, en austan og norðaustan 10-18 m/s um N-vert landið fram á kvöld og snjókoma eða slydda. Hægt hlýnandi veður, hiti 0 til 5 stig S-lands í dag, en minnkandi frost fyrir norðan.
Spá gerð: 30.12.2013 04:03. Gildir til: 31.12.2013 05:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag (gamlársdagur):
Norðaustan og austan 8-13 m/s, en 10-15 á Vestfjörðum og með SA-ströndinni. Lítilháttar él á A-verðu landinu og með N-ströndinni, en skýjað með köflum og úrkomulaust annars staðar. Hiti rétt yfir frostmarki við ströndina, en vægt frost í innsveitum.
Á miðvikudag (nýársdagur):
Norðaustan 10-18 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Snjókoma NA- og A-lands, en rigning við sjóinn. Él á NV-verðu landinu, en þurrt að kalla SV-til. Víða frostlaust með ströndinni, annars hiti um frostmark.
Á fimmtudag:
Norðaustan 10-15 m/s, en 15-20 á NV-verðu landinu. Víða rigning eða slydda við sjóinn, en snjókoma inn til landsins. Talsverð úrkoma á A-verðu landinu. Hiti 0 til 5 stig, en um frostmark inn til landsins.
Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir stífa norðaustanátt. Talsverð úrkoma en þurrt á SV-landi. Frostlaust við sjóinn, en hiti um og undir frostmarki inn til landsins.
Á sunnudag:
Norðlæg átt og úrkomulítið en vaxandi austanátt með slyddu eða rigningu syðst um kvöldið. Kólnar N-til en hiti um frostmark syðra.