Árið 2013 létu 15 manns lífið í 14 umferðarslysum, 8 konur og 7 karlar. Það eru 6 fleiri en árið áður, þegar 9 létust. Banaslys í umferðinni hafa ekki verið fleiri í 5 ár.
Fimm hinna látnu voru börn undir 18 ára aldri, en umferðarslys eru helsta dánarorsök ungs fólks á Íslandi.
Útafakstur og árekstrar eru algengustu tegundir slysa, en í einu tilviki var ekið á gangandi vegfaranda. Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun rannsaka slysin og gera tillögur í öryggisátt eftir því sem tilefni er til.
Að sögn Ágústs Mogensen, rannsóknarstjóra umferðarslysa, er ljóst að í nokkrum tilvikum voru bílbelti ekki notuð. Ágúst segir það miður, í ljósi áróðurs fyrir beltanotkun undanfarin ár. Þá eru hraðakstur og ölvunarakstur þættir í nokkrum slysum.
Flestir dóu á Suðurlandsvegi
Þegar í ágústmánuði 2013 voru banaslysin í umferðinni orðin fleiri en allt árið á undan. Fyrstu viku þess mánaðar létu fjórir lífið í þremur slysum. Öll banaslysin nema tvö urðu utan þéttbýlis og má nefna að fimm létu lífið í slysum á Suðurlandsvegi.
Vegakaflinn milli Reykjavíkur og Selfoss hefur í nokkur ár verið sá versti í vegakerfi landsins, hvað meiðsli og banaslys varðar. Þar létu tveir lífið á árinu sem var að líða. Þriðja banaslysið á Suðurlandsvegi varð við Þingborg, rétt austan við Selfoss, auk þess sem tvöfalt banaslys varð á Suðurlandsvegi við Meðalland.
Markmið yfiralda er að fækka alvarlega slösuðum og látnum í umferðinni um 5% á hverju ári fram til ársins 2022. Ætlunin er einnig að vera í hópi þeirra þjóða sem best standa sig með tilliti til banaslysa í umferðinni.
Þau létust í umferðinni árið 2013:
- Blængur Mikael Bogason, 12 ára, lést 1. mars í bílslysi skammt frá Kotá í Norðurárdal í Skagafirði.
- Ellert Þór Benediktsson, 45 ára, lést 25. mars þegar jeppi og dráttarvél skullu saman á Skeiðarvegi.
- Lilja Rán Björnsdóttir, 3 ára, lést 31. mars þegar fjórhjól sem hún var farþegi á valt. Slysið varð við bæinn Skjöldólfsstaði á Breiðdal.
- Lovísa Hrund Svavarsdóttir, 17 ára, lést 6. apríl eftir árekstur við jeppa.
- Bergur Júlíusson, 51 árs, lést 16. maí í bifhjólaslysi á Akranesi.
- Dröfn Guðmundsdóttir, 66 ára, lést 13. júní þegar bíll hennar valt í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi.
- Natalia Gabinska, 15 ára, lést 4. ágúst í bílslysi á Suðurlandsvegi við Meðalland.
- Magdalena Hyz, 16 ára, lést 4. ágúst í bílslysi á Suðurlandsvegi við Meðalland.
- Leifur Ársæll Leifsson, 58 ára, lést 7. ágúst í bílslysi á Suðurlandsvegi við Þingborg.
- Þórhallur Þór Alfreðsson, 24 ára, lést 10. ágúst í bílslysi á Suðurlandsvegi við Rauðavatn þar sem rúta og fólksbíll lentu saman.
- Elín Þorsteinsdóttir, 66 ára, lést 2. september eftir bílslys sem varð 23. ágúst á Vesturlandsvegi við Glanna.
- Sveinn Björnsson, 33 ára, lést 28. september í bílveltu í Kelduhverfi, austan Húsavíkur.
- Berglind Heiða Guðmundsdóttir, 30 ára, lést þann 30. nóvember af völdum áverka sem hún fékk þegar ekið var á hana í Reykjanesbæ 14. nóvember.
- Karlmaður fæddur 1972 lést 26. desember á Reykjanesbraut við Sæbraut, eftir ákeyrslu við brúarstólpa.
- Dagný Ösp Runólfsdóttir, 21 árs, lést þann 30. desember eftir umferðarslys sem varð daginn áður á Hellisheiði.
Fjöldi látinna í umferðarslysum undanfarinn áratug.
mbl.is/Elín Esther
Blængur Mikael Bogason var 12 ára þegar hann lést í bílslysi 1. mars 2013.
mbl.is
Lilja Rán Björnsdóttir var 3 ára þegar hún lést af slysförum 31. mars 2013.
Lovísa Hrund Svavarsdóttir var 17 ára þegar hún lést í bílslysi 6. apríl 2013.
Bergur Júlíusson lést í bifhjólaslysi 16. maí 2013.
Dröfn Guðmundsdóttir lést í bílveltu 13. júní 2013.
mbl.is
Natalia Gabinska (vinstri) og Magdalena Hyz (hægri) létust í bílslysi á Suðurlandsvegi 4. ágúst 2013.
mbl.is
Sveinn Björnsson lést í bílveltu 28. september 2013.
mbl.is
Berglind Heiða Guðmundsdóttir lést eftir 30. nóvember 2013, eftir að ekið var á hana.
mbl.is
Dagný Ösp Runólfsdóttir lést 30. desember eftir umferðarslys á Hellisheiði.