„Þetta er örugglega milljónatjón,“ segir Karl Ásberg Steinsson, félagi í björgunarsveitinni Hafliða á Þórshöfn, en björgunarsveitarmenn hafa í allan dag unnið við að berja ísingu utan af möstrum á Viðarfjalli í Þistilfirði. 48 metra mastur á fjallinu féll til jarðar í nótt.
Útsendingar Ríkisútvarpsins liggja niðri á stórum svæðum norðaustantil á landinu eftir að útsendingarmastrið féll til jarðar. Óvíst er hvenær viðgerð lýkur, en hægt er að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp á vef RÚV. Nettenging á þessu svæði er hins vegar víða slæm.
„Það er mjög mikil ísing. Mér sýnist þetta vera um fjórir cm utan á vírunum. Mastrið er 48 metra hátt og það féll til jarðar vegna ísingarinnar. Mastrið er stagað niður með vírum, en festingarnar slitnuðu,“ sagði Karl.
Sjónvarpútsendingin á Norðausturlandi datt út á gamlársdag. „Vodafone, sem sér um rekstur á mastrinu, bað okkur að fara hingað í gær og reyna að hreinsa ísingu af því. Þá stóð mastrið uppi, en það var svo mikil ísing og vont veður að við hættum okkur ekki upp í mastrið. Síðan þegar við komum hingað í morgun til að reyna að berja ísingu af því, var mastrið hrunið,“ sagði Karl.
Fleiri minni möstur eru við stöðvarhúsið á Viðarfjalli og eru björgunarsveitarmenn að hreinsa ísingu af þeim. Þeir eru með sigbúnað, en Hafliði sagði að þetta væri erfitt verkefni.
Karl sagði að mikið tjón hefði orðið vegna ísingarinnar. Mastrið, sem var ekki gamalt, er fallið og til viðbótar eru skemmdir í stöðvarhúsinu. Vírar liggja inn í það og þeir hafa tognað og skemmst.
Karl sagði að ísingin væri lúmsk. Hún settist á bíla og búnað björgunarsveitarmanna.