Björgunarafrek á Suðurskautslandinu

Starfsmenn Arctic Trucks á Suðurskautslandinu.
Starfsmenn Arctic Trucks á Suðurskautslandinu.

Starfsmenn íslenska fyrirtækisins Arctic Trucks, sem nýverið fylgdu Harry Bretaprins og fötluðum hermönnum úr samtökunum Walking With The Wounded á Suðurskautslandinu, fást við ýmis verkefni. Nú síðast voru þeir beðnir um að fara í björgunarleiðangur á Suðurskautslandinu sem tókst giftusamlega.

Arctic Trucks gerir starfsemi sína út frá Novo en þar rekur rússneskt fyrirtæki flugvöll og starfsstöð, auk þess sem finnsku og indversku heimskautarannsóknarstofnanirnar gera þaðan út. Það var einmitt síðarnefnda rannsóknarstofnunin sem hafði samband við Arctic Trucks á dögunum. Ekkert hafði spurst til þriggja indverskra vísindamanna sem ekið höfðu 160 kílómetra upp í fjöll í átt að veður- og eftirlitsstöð. Tíu dagar voru frá því síðast heyrðist í mönnunum og því var óttast hið versta.

Starsfmenn Arctic Trucks ákváðu að taka að sér leitarverkefnið og fóru í björgunarleiðangur. Leitin hófst í gær og tóku þrír Íslendingar þátt í henni, þeir Ari Hauksson, Pálmi Baldursson og Arnór Ingólfsson. Í morgun bárust svo góðar fréttir. Indverjarnir fundust heilir á húfi. Gervihnattasími þeirra bilaði og gátu þeir ekki látið vita af sér. Þeir voru með vistir og gátu því matast en þegar þeir fundust var lítið eftir og því þykir mikil mildi að þeir hafi fundist strax.

Að vonum var indverska heimskautarannsóknarstofnunin ánægð með árangur Arctic Trucks og verður fyrirtækinu vel launað fyrir árangurinn.

Arctic Trucks heldur úti viðamikilli ferðaþjónustu á Suðurskautslandinu en Guðmundur Guðjónsson, verkefnastjóri Suðurpólsdeildar Arctic Trucks á Íslandi, segir að þetta sé fyrsta björgunarverkefni fyrirtækisins. Ekki standi til að bæta slíkri deild við starfsemina en gaman sé að geta orðið að liði.

Annars er það að frétta að vel heppnuðu suðurskautstímabilinu fer að ljúka, en það stendur að jafnaði yfir í tæplega tvo og hálfan mánuð, og eiga Íslendingarnir heimferð fyrir höndum 9. janúar næstkomandi. 

Kort sem sýnir staðsetningu Novo stöðvarinnar þar sem Arctic Trucks …
Kort sem sýnir staðsetningu Novo stöðvarinnar þar sem Arctic Trucks er með stærstan hluta starfsemi sinnar. Í ár verður einnig einn bíll á Union Glacier bækistöðinni. Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert