Hægt verður að ráðast í gerð Norðlingaölduveitu samkvæmt ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, um að breyta friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera. Þar er gert ráð fyrir að mörk friðlandsins verði dregin í kringum lónið í samræmi við eina af þeim tillögum sem Landsvirkjun lagði fram í sumar. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Rifjað var upp að í sumar hafi umhverfisráðherra frestað friðlýsingu Þjórsárvera skömmu áður en til stóð að staðfesta hana eftir að athugasemdir bárust frá Landsvirkjun. Svandís Svavarsdóttir, forveri Sigurðar í embætti umhverfisráðherra, hafði í hyggju að stækka friðlandið verulega sem hefði komið í veg fyrir Norðlingaölduveitu.
Vísað er í bréf dagsett 27. desember síðastliðinn sem Umhverfisstofnun hafi sent tveimur sveitarfélögum sem hafa skipulagsvald á svæðinu í samræmi við lög. Þar segi að umhverfisráðuneytið ætli að gera breytingar á fyrirhuguðu friðlandi. Þær breytingar séu í samræmi við eina af þeim tillögum sem Landsvirkjun hafi sett fram í sumar.
Frétt mbl.is: Vill breyta friðlýsingu Þjórsárvera