Til stendur að Norðlingaölduveita verði áfram í verndarflokki og innan fyrirhugaðs friðlands í Þjórsárverum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmanni Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra.
Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að ráðherrann hefði tekið ákvörðun um að mörk friðlandsins yrði í kringum lónið sem þýddi að hægt yrði að ráðast í Norðlingaölduveitu.
Þetta er hins vegar ekki rétt að sögn Ingveldar. Enginn virkjanakostur sé innan friðlýsta svæðisins. Innan þess verði Norðlingaölduveita sem áður segir, Eyvafen og lítt röskuð víðernin vestan Þjórsár sem hafi hátt verndargildi. Þá feli ákvörðun umhverfisráðherra í sér mikla stækkun núverandi friðlands Þjórsárvera.