Hætt hefur verið við mokstur í Ísafjarðardjúpi og á Steingrímsfjarðarheiði samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni og verður skoðað hvort mokað verður í fyrramálið. Ófært er og óveður á Steingrímsfjarðarheiði og um Þröskulda.
Hálka og skafrenningur er á Hálfdán en hálka á Mikladal og Kleifaheiði. Þæfingur er frá Brjánslæk í Skálmadal en ófært og stórhríð á Klettshálsi. Þæfingur og óveður í Kollafirði og um Hjallháls og Ódrjúgsháls.
Vegna snjóflóðahættu er fólk beðið að gæta varúðar á Flateyrarvegi en þar er þæfingsfærð og skafrenningur. Þæfingsfærð og stórhríð er í Súgandafirði og þungfært frá Súðavík í Ögurnes. Vestanlands er hálka eða hálkublettir mjög víða. Ófært er á Fróðárheiði. Þæfingur og óveður er í Svínadal. Óveður er í Staðarsveit.
Norðanlands er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Óveður er á Skagastrandarvegi og í Langadal. Snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli. Flughálka er út Blönduhlíð. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Þoka er á Hólaheiði, Hófaskarði og Hálsum.
Flughált er á Fljótsdalshéraði. Flughált og þoka er á Vatnsskarði eystra. Snjóþekja og skafrenningur er á Biskupshálsi en hálka og éljagangur á Möðrudalsöræfum, þæfingur og snjókoma á Vopnafjarðarheiði. Hálka og þoka er á Fjarðarheiði og á Oddskarði en hálka á Fagradal og Jökuldal. Autt er frá Fáskrúðsfirði með ströndinni suður um.
Þjóðvegur eitt er auður á Suðurlandi en hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á öðrum vegum. Flughált í Grafningi og í Landeyjum. Eins er flughált á Suðurstrandarvegi, Krýsuvíkurvegi og á Kjósarskarði.