Engu áfátt samkvæmt innri athugun

Frá vettvangi flugslyssins í fyrra. Björgunarsveitarmenn hreinsa til á svæðinu …
Frá vettvangi flugslyssins í fyrra. Björgunarsveitarmenn hreinsa til á svæðinu og hlutar úr flugvélaflakinu fjarlægðir til frekari rannsóknar. Skapti Hallgrímsson

Samkvæmt innri athugun Mýflugs á flugslysinu sem varð á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar 5. ágúst í fyrra var engu áfátt hvað varðar útbúnað og viðhald vélar félagsins sem fórst, TF-MYX. Þjálfun og hvíld flugstjóra og flugmanns var í samræmi við reglugerðir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem mbl.is hefur undir höndum.

Tveir menn létust í slysinu, flugstjóri og sjúkraflutningamaður. Aðstandendur annars þeirra hyggjast óska opinberrar rannsóknar á tildrögum og eftirmálum slyssins, en Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur ekki lokið við lokaskýrslu. Athugun Mýflugs snýr að þeim þáttum sem snúa að flugrekstrinum og var hún gerð skömmu eftir slysið.

Í skýrslunni um innri athugun Mýflugs kemur m.a. fram að sjö þættir voru kannaðir, þeirra á meðal viðhald vélarinnar, þjálfun og hvíld áhafnar. Allir þessir þættir voru metnir viðunandi.

Rannsókn á slysinu stendur enn yfir, en Rannsóknarnefnd samgönguslysa gaf út bráðabirgðaskýrslu í byrjun október í fyrra. Þar segir að rannsóknin beinist m.a. að því hvers vegna flugvélin hafi misst hæð og að skoða eigi flak og hreyfla vélarinnar nánar, ásamt fluglagi hennar og afkastagetu.

Fóru í gegnum flugrekstrarþættina

„Það er svo lítið hægt að segja um málið á meðan það er enn í rannsókn,“ segir Sigurður Bjarni Jónsson, flugöryggisfulltrúi og stjórnarformaður Mýflugs. „Auðvitað getum við ekki rannsakað flugslys sem slíkt, við höfum ekki þekkingu til þess og svo væri það varla trúverðugt, þar sem þetta var vél frá okkur. Við gerðum þessa rannsókn með það að markmiði að fara í gegnum þá flugrekstrarlegu þætti sem við erum til þess bær að leggja mat á. Við getum skoðað ákveðna þætti sem tengjast flugrekstrinum til þess að sjá hvort eitthvað í okkar rekstri kalli á viðbrögð.“

Málið er í höndum Rannsóknarnefndarinnar

Spurður um viðbrögð við staðhæfingum í fjölmiðlum um að misræmi sé á milli framburðar vitna og bráðabirgðaskýrslu Rannsóknarnefndarinnar segir Sigurður Mýflug ekki vera í aðstöðu til að tjá sig mikið um það. Málið sé í höndum Rannsóknarnefndarinnar.

„Ég held að tilgangur bráðabirgðaskýrslu sé ekki að komast að niðurstöðu, heldur safna saman helstu staðreyndum. Við höfum allan skilning á því að fólk lengi eftir svörum um hvað það var sem gerðist. Við höfum átt gott samstarf við rannsóknarnefndina eftir því sem hún telur þurfa. Við reynum að aðstoða eftir föngum og bíðum eftir niðurstöðum, eins og svo margir aðrir,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert