Manni og konu bjargað út um glugga

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Maður og kona voru flutt á Landspítalann í Fossvogi í kvöld eftir að eldur kom upp í íbúð við Mávabraut í Keflavík rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Töluverður eldur og mikill reykur var í íbúðinni þegar Brunavarnir Suðurnesja komu á vettvang en skamma stund tók að slökkva eldinn. Talið er að fólkið hafi hlotið reykeitrun en að sögn læknis á Landspítala er nú verið á kanna ástand þess.

Brunavörnum Suðurnesja barst tilkynning um brunann klukkan 20:55 í kvöld. Lögregla kom fyrst á vettvang og náði hún að bjarga öðrum þeirra sem staddur var í íbúðinni út um stóran glugga á neðri hæð hússins. Íbúðin er hluti af raðhúsalengju og náði eldurinn ekki að læsa sig í aðrar íbúðir hússins. Lögreglu, ásamt slökkviliði, tókst síðan að bjarga hinum út um sama glugga.

Fólkið var fyrst flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en þar var tekin ákvörðun um að flytja það á Landspítala í Fossvogi og komu þau þangað um hálf ellefu í kvöld. Að sögn læknis er nú verið að kanna ástand fólksins.

Töluverður eldur og mikill reykur var í íbúðinni þegar lögregla og Brunavarnir Suðurnesja komu á vettvang. Tveir reykkafarar fóru þegar í stað inn í íbúðina, en ekki var vitað hversu margir voru í íbúðinni. Skamma stund tók að slökkva eldinn og gekk greiðlega að ná fólkinu út úr íbúðinni. Íbúðin er mikið skemmd af völdum sóts, reyks og elds. Ekki er vitað um upptök eldsins.

Uppfært kl. 23:45

Samkvæmt upplýsingum frá lækni á Landspítalanum í Fossvogi fékk fólkið að fara heim að loknu eftirliti á spítalanum.

Frétt mbl.is: Eldur í íbúðarhúsi í Keflavík

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. Víkurfréttir/Hilmar Bragi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert