Metfjöldi bíður meðferðar við átröskun

Biðlisti eftir meðferð við átröskun hefur aldrei verið lengri.
Biðlisti eftir meðferð við átröskun hefur aldrei verið lengri. mbl.is/Golli

Um fjögurra mánaða biðtími er nú eftir að komast í meðferð við átröskun á Landspítalanum, en á síðasta ári var biðtíminn um fjórar vikur. Að sögn Sigurlaugar Maríu Jónsdóttur, sálfræðings og teymisstjóra átröskunarteymis Landspítalans, Hvítabandsins, hefur biðlistinn eftir meðferð lengst verulega á síðasta hálfa ári.

Á hverjum tíma eru um 60-80 einstaklingar í meðferð og forgangsraða þarf til þess að ná fyrst til þeirra sem verst eru staddir. Þegar einstaklingur leitar til Hvítabandsins fer hann fyrst á biðlista eftir greiningarviðtali þar sem farið er yfir vandann og úrræði metin. Fyrsta skrefið er þá að stöðva átröskunarhegðunina og koma á bættu líkamlegu ástandi.

Oftast konur um tvítugt

Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem leita sér hjálpar, eða um 99% tilvika, og er algengast að þær séu á aldrinum 18 til 35 ára, þó konur af öllum aldri þjáist af átröskun. „Algengast er að þetta séu ungar konur um tvítugt, en við fáum þó einnig til okkar konur allt upp í 65 ára gamlar. Konur eru mun algengari, það er eins og þær leiti sér fremur aðstoðar," segir Sigurlaug og tekur fram að sjúkdómurinn teljist að einhverju leyti vera „kvennasjúkdómur“, og því sé það ef til vill þungbærara fyrir karlmenn að leita sér hjálpar.

Tískubylgjur í átröskunarhegðun

Margir þeirra sem bíða meðferðar kjósa að leita ráðgjafar annars staðar á meðan biðinni stendur, en Linda Dögg Hólm, ráðgjafi hjá Geðhjálp, fær gjarnan til sín einstaklinga sem bíða meðferðar. Hún segist taka eftir „tískusveiflum“ í átröskunum. „Nú hef ég tekið eftir að konur séu að fasta. Þær borða þá ekki í til dæmis sextán klukkustundir á hverjum sólarhring, en borða síðan þrjár máltíðir á þeim klukkustundum sem eftir standa af sólarhringnum. Þetta er gert á ákveðnu tímabili og eru konur að finna upplýsingar og leiðbeiningar um þetta á netinu,“ segir Linda.

Hún segist aðallega fá til sín ungar konur, um tvítugt, en algengt er að þær leiti sér sjálfar hjálpar, án utanaðkomandi þrýstings. „Þunglyndi er fylgifiskur þess að vera með átröskun. Þegar átröskunin er farin að hafa þannig áhrif á konur, að þær geti ekki sinnt vinnu, þá virðast þær leita sér hjálpar og eru oft virkilega tilbúnar til þess,“ segir hún og bætir við að á þeim tímapunkti sé algengt að konur hafi ekki haft tíðarblæðingar í marga mánuði.

Forvarnarstarf þarf að bæta

Linda segist ekki vita til þess að reglulegt forvarnarstarf sé í gangi í skólum til þess að vara við afleiðingum átröskunar, en þó sé í boði fyrir skóla að hafa samband við Geðhjálp og fá ráðgjafa frá þeim í heimsókn og sem veiti þá fræðslu um geðraskanir og geðrækt. Sigurlaug María tekur í sama streng og segir mikilvægt að efla forvarnarstarf, sem hún telur frekar eiga að ganga út á að efla jákvæða og heilbrigða sjálfsmynd ungs fólks, heldur en einhvers konar hræðsluáróður. 

Ítalska fyrirsætan Isabelle Caro sat fyrir í herferð gegn átröskunum …
Ítalska fyrirsætan Isabelle Caro sat fyrir í herferð gegn átröskunum fyrir nokkru.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert