Brugghúsið Steðji hefur fengið alþjóðlega athygli eftir að út spurðist um áform þess að setja á markað svonefndan hvalabjór. í bjórinn er notað hvalamjöl og eru umhverfisverndarsamtök afar óhress með þessa nýjung á íslenskum bjórmarkaði.
Breska dagblaðið Guardian fjallar um málið á fréttavef sínum í dag. Þar er rætt við Vanessu Williams-Grey en hún starfar fyrir samtökin Whale and Dolphin Conservation. Hún segir ákvörðun Steðja vera svívirðilega og siðlausa. „Brugghúið getur haldið því fram að þetta sé aðeins árstíðabundin vara og verði aðeins í sölu í stuttan tíma, en þvílíkur verðmiði sem settur er á hval í útrýmingarhættu sem hefði mögulega lifað í 90 ár.“
Rætt var við Dagbjart Arilíusson, eiganda brugghússins, á mbl.is í gær. Hann segir samkeppnina á bjórmarkaði mikla hér á landi og þar sem bannað sé að auglýsa þurfi minni brugghúsin að fara óhefðbundnar leiðir og spila djarft til að ná athygli með nýjum vörum. Svo virðist sem það hafi tekist hjá Dagbjarti.
Frétt mbl.is: Hvalabjór settur á markað fyrir þorrann