„Ég hef fengið urmul af póstum frá fólki sem er mjög reitt og eitthvað af hótunum líka,“ segir Dagbjartur Ingvar Arilíusson, annar eigandi Brugghús Steðja, en ástæðan er sögð vera nýr þorrabjór, svonefndur Hvalur, sem brugghúsið hyggst gefa út á næstunni.
Dagbjartur Ingvar segir hótanirnar sem borist hafa vera mis alvarlegar, en sumar þeirra eru hótanir um líkamsmeiðingar. Hingað til hefur hann þó ekki séð neina ástæðu til þess að setja sig í samband við lögreglu vegna póstanna.
„Margir póstar eru enn að berast, vegna þess að fréttin [um hinn nýja bjór] er enn að berast út um allan heim,“ segir Dagbjartur Ingvar og bætir við að engin innlend hótun hafi borist honum til þessa heldur komi þær allar erlendis frá.
„Þetta eru fyrst og fremst hvalfriðungar og hef ég t.a.m. fengið fyrirspurn um hversu margir hvalir liggi í einum bjór, eins og ég láti drepa hval fyrir hvern bjór,“ segir hann en við framleiðsluna er hvalamjöl notað í stað viðbætts sykurs.
Aðspurður segir Dagbjartur Ingvar flestar hótanir berast frá Bretlandi en síðustu klukkustundir hafi hins vegar hótanir tekið að berast frá Þýskalandi, Austurríki og Hollandi. Fréttamiðlar vestanhafs hafa einnig tekið upp fréttina um Hvalabjórinn og hafa dagblöð í Bandaríkjunum sett sig í samband við Dagbjart Ingvar.
Hvalabjórinn er að sögn bragðmikill og þrátt fyrir að ekki sé mjög mikið magn af hvalmjöli í honum segir Dagbjartur Ingvar bragðið ná í gegn. „Við notum líka reykt malt með honum og reynum þannig að gera hann að aðeins meiri bjór fyrir vikið.“
Frétt mbl.is: Hvalabjór settur á markað fyrir þorrann
Frétt mbl.is: Hvalabjór vekur athygli