Von á svari í næstu viku

Lika Korinteli.
Lika Korinteli. Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að Liku Korinteli, georgískri konu sem sótti fyrst um hæli hér á landi árið 2005, berist svar vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða áður en janúarmánuður er hálfnaður. Því má gera ráð fyrir að svarið berist Liku um miðja næstu viku. Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Liku, í samtali við mbl.is. Áður stóð til að henni bærist svar fyrir árslok 2013 en ekkert varð úr því.

Lika kom hingað til lands árið 2005 og sótti um hæli. Umsókn hennar var synjað af Útlendingastofnun (ÚTL) eftir hálft ár og dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfesti útskurðinn hálfu ári síðar. Í ferli málsmeðferðar komu þær upplýsingar frá yfirvöldum Georgíu að þau gætu ekki borið kennsl á að Lika væri ríkisborgari í Georgíu.

Hægt að líta framhjá skilyrðum laganna

Lika sótti um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2008 en fékk synjun frá ÚTL árið 2012 og var málinu áfrýjað til innanríkisráðuneytisins og bíður Lika nú enn eftir svari. Að sögn Helgu Völu var meginástæða synjunar ÚTL sú að Lika getur ekki útvega gögn sem sýna fram á það að hún sé sú sem hún segist vera, en það er eitt skilyrða leyfisveitingarinnar samkvæmt lögum um útlendinga.

Toshiki Toma, prestur innflytjenda, greindi fyrst frá máli Liku í aðsendri grein í Morgunblaðinu í lok október. Þar rakti hann sögu Liku og greindi frá aðstæðum hennar hér á landi. Vegna sérstakra aðstæðna getur Lika ekki framvísað þeim gögnum sem Útlendingastofnun krefst frá hælisleitendum, en allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu. Safnið brann í stríðinu árið 1992, Lika varð pappírslaus en stjórn Georgíu lét henni ekki í té nýja pappíra sem georgískum borgara.

Ljóst er að Lika getur ekki framvísað gögnum sem sanna á óyggjandi hátt að hún sé sú sem hún segist vera. Að sögn Helgu Völu getur innanríkisráðuneytið þó litið framhjá þessu skilyrði laga um útlendinga ef talið er hafið yfir allan vafa hver hún er í raun og veru og þá er hægt að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Frétt mbl.is: Árið senn á enda og ekkert svar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert