Samkvæmt rannsóknum skaða 7% 14-15 ára unglinga sig á ári og sumar vefsíður gera út á sjálfsskaða. Um 10% fimm ára barna hér á landi greinast með tilfinningaraskanir og kvíði og þunglyndi í æsku hefur forspárgildi varðandi slíkar raskanir á fullorðinsárum.
Þetta sagði Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir legudeildar Barna- og unglingageðdeildar LSH, BUGL, á ráðstefnu deildarinnar sem nú stendur yfir.
Í erindi Ólafs, sem bar heitið Tilfinningaraskanir barna, kom m.a. fram að helmingur fólks muni uppfylla viðmið geðröskunar einhvern tímann á ævinni og byrja þær oftast á barns- eða unglingsaldri.
Viðamikil rannsókn hefur sýnt að á hverju ári þjáist einn af hverjum fjórum tii fimm ungmennum af a.m.k. einni geðröskun. „Í æsku liggja tækifærin til að hafa áhrif á gang mála,“ sagði Ólafur.
Rannsókn á geðheilbrigði fimm ára barna hér á landi sýndi 10.1% algengi tilfinningaraskana barna á þessum aldri, þar af var um helmingur með kvíðaraskanir.
Að sögn Ólafs geta einkenni tilfinningaraskana birst m.a. í líkamlegri líðan eins og maga- og höfuðverkjum, þreytu og depurð. Hugsanir geta einkennst af áhyggjum og kvíða.
Hann sagði að á síðustu 20-25 árum hefði orðið mikil aukning á þekkingu á þunglyndi barna og unglinga. „8% unglinga hafa uppfyllt greiningarviðmið þunglyndis á einu ári og 14,8% einstaklingar hafa fengið einkenni þunglyndis við 21 árs aldurs,“ sagði Ólafur. „Einkennin eru mismunandi eftir þroskastigi.“
Þegar tilfinningaraskanir eru greindar eru börnin eða unglingarnir yfirleitt send af foreldrum eða kennurum. „Yfirleitt hafa þau lítinn áhuga á að ræða vandann þannig að upplýsingarnar koma oft frá þeim fullorðnu,“ sagði Ólafur og sagði að við greininguna væru ýmsir þættir skoðaðir, t.d. sjúkrasaga viðkomandi, þroski hans og samskipti við jafnaldra.
Til að þunglyndi verði greint þurfa fimm eða fleiri skilgreind einkenni að hafa verið til staðar í a.m.k. tvær vikur og meðal þeirra eru depurð, gleðileysi, matarlyst, vanþrif, svefntruflanir, þreyta, vonleysi og athyglisbrestur. „Yfir helmingur þeirra sem svipta sig lífi hafa verið greindir með þunglyndi og því lengur, því meiri hætta,“ sagði Ólafur.
Í erindi Ólafs kom fram að sjálfsskaðahugsanir og -hegðun nái hámarki á milli 14-18 ára aldurs. Þar er mikill kynjamunur, en þessi hugsun og hegðun er miklu algengari hjá stúlkum. Rannsóknir hafa sýnt að 7% 14-15 ára unglinga skaða sig á einu ári.
„Sjálfsskaði er inni inni í sumum kreðsum unglinga og á sumum vefsíðum er beinlínis gert út á það,“ sagði Ólafur og sýndi dæmi um slíka vefsíðu. Hann sagði að svo virtist sem stundum skapaðist mikið „feedback“ í unglingahópum til að halda slíkri hegðun áfram. Mikilvægt væri að tryggja eftirlit foreldra og vímuefni mögnuðu slíka hegðun upp.
Í máli Ólafs kom einnig fram að kvíði og þunglyndi í æsku hafi forspárgildi varðandi slíkar raskanir á fullorðinsárum. „Meira en þrír fjórðu fullorðinna með geðröskun hafa fengið geðröskunargreiningu milli 11 og 18 ára. Mótþróa- og hegðunarröskun á barnsaldri getur leitt til tilfinningraskana á fullorðinsaldri,“ sagði Ólafur.