Samkomulag í sjónmáli

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi. Ómar Óskarsson

Stjórn hjúkr­un­ar­heim­il­is­ins Eir­ar hef­ur átt í viðræðum við Reykja­vík­ur­borg, ríkið, líf­eyr­is­sjóði og stofnaðila um að þess­ir aðilar aðstoði við að tryggja fjár­hag heim­il­is­ins til framtíðar. Stjórn­ar­formaður Eir­ar seg­ir að flest bendi til þess að það tak­ist að ná sam­komu­lagi, en að sögn hans var er­indi stjórn­ar­inn­ar hjá rík­inu af­greitt í dag með já­kvæðum hætti.

„Það er eng­inn til­bú­inn til þess að koma til móts við okk­ur einn síns liðs. Það verða að vera all­ir,“ seg­ir stjórn­ar­formaður­inn, Jón Sig­urðsson, í sam­tali við mbl.is.

Eins og greint var frá á mbl.is í gær voru nauðasamn­ing­ar vegna Eir­ar samþykkt­ir í gær á fundi með kröfu­höf­um. 60% kröfu­hafa þurftu að samþykkja samn­ing­ana en að sögn Jóns samþykktu 83% þá miðað við höfðatölu og 77% miðað við fjár­hæðir.

Fara fyr­ir héraðsdóm í næstu viku

Hann seg­ist gera ráð fyr­ir því að samn­ing­arn­ir fari fyr­ir héraðsdóm í næstu viku en sam­kvæmt lög­um um nauðasamn­inga þarf héraðsdóm­ur að staðfesta þá áður en þeir taka gildi. „Við vænt­um þess að þeir verði af­greidd­ir þar,“ seg­ir hann.

Að sögn Jóns hef­ur stjórn Eir­ar átt í viðræðum við þá líf­eyr­is­sjóði sem heim­ilið skuld­ar um skil­mála­breyt­ing­ar, svo sem að lengja í lán­um eða lækka vexti, um skeið. „Við verðum í þeim viðræðum á næst­unni.

Við erum líka með er­indi sem fer fyr­ir borg­ar­ráð í næstu viku og þá höf­um við verið með er­indi hjá rík­is­sjóði sem var af­greitt í dag með já­kvæðum hætti,” nefn­ir hann.

Mik­il skjala­vinna framund­an

Hann seg­ir að ef það tak­ist að ná sam­komu­lagi við alla aðila í seinni­hluta janú­ar­mánaðar taki við mik­il skjala­vinna. „Hún stend­ur sjálfsagt yfir í fe­brú­ar og mars. Þetta er mjög fag­leg vinna. Bæði skil­mála­breyt­ing­ar gagn­vart lán­ar­drottn­un­um, eins og ég nefndi, og síðan eru það skulda­bréf­in sem þarf að vinna fyr­ir hverja íbúð,“ seg­ir hann og vís­ar þá til þeirra þrjá­tíu ára skulda­bréfa sem íbúðarrétt­ar­haf­ar fá af­hent sam­kvæmt nauðasamn­ing­un­um.

Því megi segja að Eir sé loks á leiðinni út úr þeim fjár­hags­legu erfiðleik­um sem það hef­ur glímt við. „Ég von­ast til þess að við sjá­um það vel um pásk­ana.“

Spurður um aðkomu rík­is­ins að mál­um Eir­ar seg­ir Jón að stjórn­in hafi leitað til þess vegna þess að Íbúðalána­sjóður megi ekki veita fyr­ir­greiðslu eins og líf­eyr­is­sjóðirn­ir. „Við höf­um bók­staf­lega verið alls staðar að reyna að fá aðstoð við þetta. Og í raun má segja að frá og með deg­in­um í dag erum við farn­ir að sjá að leiðin get­ur legið upp á við,“ seg­ir hann.

„Ríkið ætl­ar að hjálpa okk­ur en í öll­um aðal­atriðum er það þó þannig að það er heim­ilið sjálft sem ger­ir þetta og hef­ur kom­ist í gegn­um þetta með stuðningi fólks­ins.„ Þá nefn­ir hann að Íbúðalána­sjóður sé einnig einn af lán­ar­drottn­un­um en að sjóður­inn megi ekki koma til móts við heim­ilið með sama hætti og líf­eyr­is­sjóðirn­ir.

„Það bíða all­ir eft­ir hinum“

Í des­em­ber hafnaði Reykja­vík­ur­borg er­indi frá for­stjóra Eir­ar um að borg­in legði aukið fjár­magn til heim­il­is­ins. Í svar­inu sagði að borg­in væri ekki til­bú­in að stíga slíkt skref meðan ríkið, sem bæri ábyrgð á mála­flokkn­um, hafnaði stuðningi.

Nú sé ríkið hins veg­ar til­búið að styðja rekst­ur­inn og því standi von­ir stjórn­ar Eir­ar til þess að aðrir aðilar, þar á meðal Reykja­vík­ur­borg, geri það sama. „Það er eng­inn til­bú­inn til þess að koma til móts við okk­ur einn síns liðs. Það verða að vera all­ir. Það bíða all­ir eft­ir hinum,“ seg­ir Jón.

„Á sama hátt og fólkið hef­ur samþykkt að taka á móti skulda­bréfi til þrjá­tíu ára, þá erum við að von­ast til þess að aðrir aðilar stígi líka skref að sínu leyti.”

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar.
Jón Sig­urðsson, stjórn­ar­formaður Eir­ar. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka