Samkomulag í sjónmáli

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi í Grafarvogi. Ómar Óskarsson

Stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar hefur átt í viðræðum við Reykjavíkurborg, ríkið, lífeyrissjóði og stofnaðila um að þessir aðilar aðstoði við að tryggja fjárhag heimilisins til framtíðar. Stjórnarformaður Eirar segir að flest bendi til þess að það takist að ná samkomulagi, en að sögn hans var erindi stjórnarinnar hjá ríkinu afgreitt í dag með jákvæðum hætti.

„Það er enginn tilbúinn til þess að koma til móts við okkur einn síns liðs. Það verða að vera allir,“ segir stjórnarformaðurinn, Jón Sigurðsson, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá á mbl.is í gær voru nauðasamningar vegna Eirar samþykktir í gær á fundi með kröfuhöfum. 60% kröfuhafa þurftu að samþykkja samningana en að sögn Jóns samþykktu 83% þá miðað við höfðatölu og 77% miðað við fjárhæðir.

Fara fyrir héraðsdóm í næstu viku

Hann segist gera ráð fyrir því að samningarnir fari fyrir héraðsdóm í næstu viku en samkvæmt lögum um nauðasamninga þarf héraðsdómur að staðfesta þá áður en þeir taka gildi. „Við væntum þess að þeir verði afgreiddir þar,“ segir hann.

Að sögn Jóns hefur stjórn Eirar átt í viðræðum við þá lífeyrissjóði sem heimilið skuldar um skilmálabreytingar, svo sem að lengja í lánum eða lækka vexti, um skeið. „Við verðum í þeim viðræðum á næstunni.

Við erum líka með erindi sem fer fyrir borgarráð í næstu viku og þá höfum við verið með erindi hjá ríkissjóði sem var afgreitt í dag með jákvæðum hætti,” nefnir hann.

Mikil skjalavinna framundan

Hann segir að ef það takist að ná samkomulagi við alla aðila í seinnihluta janúarmánaðar taki við mikil skjalavinna. „Hún stendur sjálfsagt yfir í febrúar og mars. Þetta er mjög fagleg vinna. Bæði skilmálabreytingar gagnvart lánardrottnunum, eins og ég nefndi, og síðan eru það skuldabréfin sem þarf að vinna fyrir hverja íbúð,“ segir hann og vísar þá til þeirra þrjátíu ára skuldabréfa sem íbúðarréttarhafar fá afhent samkvæmt nauðasamningunum.

Því megi segja að Eir sé loks á leiðinni út úr þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem það hefur glímt við. „Ég vonast til þess að við sjáum það vel um páskana.“

Spurður um aðkomu ríkisins að málum Eirar segir Jón að stjórnin hafi leitað til þess vegna þess að Íbúðalánasjóður megi ekki veita fyrirgreiðslu eins og lífeyrissjóðirnir. „Við höfum bókstaflega verið alls staðar að reyna að fá aðstoð við þetta. Og í raun má segja að frá og með deginum í dag erum við farnir að sjá að leiðin getur legið upp á við,“ segir hann.

„Ríkið ætlar að hjálpa okkur en í öllum aðalatriðum er það þó þannig að það er heimilið sjálft sem gerir þetta og hefur komist í gegnum þetta með stuðningi fólksins.„ Þá nefnir hann að Íbúðalánasjóður sé einnig einn af lánardrottnunum en að sjóðurinn megi ekki koma til móts við heimilið með sama hætti og lífeyrissjóðirnir.

„Það bíða allir eftir hinum“

Í desember hafnaði Reykjavíkurborg erindi frá forstjóra Eirar um að borgin legði aukið fjármagn til heimilisins. Í svarinu sagði að borgin væri ekki tilbúin að stíga slíkt skref meðan ríkið, sem bæri ábyrgð á málaflokknum, hafnaði stuðningi.

Nú sé ríkið hins vegar tilbúið að styðja reksturinn og því standi vonir stjórnar Eirar til þess að aðrir aðilar, þar á meðal Reykjavíkurborg, geri það sama. „Það er enginn tilbúinn til þess að koma til móts við okkur einn síns liðs. Það verða að vera allir. Það bíða allir eftir hinum,“ segir Jón.

„Á sama hátt og fólkið hefur samþykkt að taka á móti skuldabréfi til þrjátíu ára, þá erum við að vonast til þess að aðrir aðilar stígi líka skref að sínu leyti.”

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar.
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Eirar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert