Talið er að um 100.000 unglingar í heiminum taki eigið líf á ári hverju. Sjálfsvíg jafningja er mikill áhættuþáttur varðandi sjálfsvíg unglinga og sjálfsvígum ungra íslenskra karla fór að fjölga á áttunda áratugnum.
Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Wilhelms Norðfjörðs sálfræðings á ráðstefnu BUGL, Barna- og unglingageðdeildar LSH, sem nú er haldin í Reykjavík. Á ráðstefnunni er fjallað um tilfinningaraskanir barna frá ýmsum sjónarhornum.
Í erindi sínu sem bar heitið Sjálfsvíg ungs fólks og fyrirbyggjandi aðgerðir, sagði Wilhelm að sjálfsvíg væri málaflokkur sem margir væru hræddir á að takast á við. „Sjálfsvíg ungra karla jukust mikið á árunum 1971 - 2000,“ sagði Wilhelm. Til marks um það sagði hann að sjálfsvíg karla 19 ára og yngri hefðu verið 12,9% allra sjálfsvíga árið 2000 en sambærilegt hlutfall fyrir árið 1940 hefði verið 1,1%. „Árin 1990 og 2000 voru toppar að þessu leyti,“ sagði Wilhelm.
Árið 2009 tóku 36 Íslendingar eigið líf að sögn Wilhelms, 29 karlar og sjö konur. Á meðfylgjandi töflu sést aldursskipting þessara einstaklinga.
Hann ræddi um þrjá mikilvægustu áhættuþættina í þessu sambandi sem eru þunglyndi, vímuefnaneysla og svokallaðir sefjunarþættir. Í því felst m.a. smit en með því er átt við hermisjálfsvíg eða bylgju sjálfsvíga í hópum.
„100.000 unglingar svipta sig lífi í heiminum á hverju ári, svo vitað sé. Talið er að um þrír vinir þeirra verði fyrir alvarlegu áfalli í hvert skipti. Sjálfsvíg jafningja er mikill áhættuþáttur,“ sagði Wilhelm. „Stundum er talað um smit í þessu samhengi. Unglingur sem á vin sem hefur sýnt sjálfsvígsatferli er líklegei til að sýna það atferli,“ sagði hann og bætti við að erfitt gæti verið að fullyrða um hvar og hvernig keðjumyndun sjálfvíga verður.
Í þessu sambandi nefndi Wilhelm dæmi um fjölda sjálfsvíga á Austurlandi á árunum 1984-1991. Á því tímabili tóku 17 ungmenni á aldrinum 15-24 ára eigið líf, en sambærilegar tölur fyrir höfuðborgarsvæðið, þar sem talsvert fleiri eru búsettir, eru 36 sjálfsvíg.
Hægt er að grípa til ýmissa aðgerða til að fyrirbyggja sjálfsvíg. Meðal þeirra eru skýrar reglur og takmarkanir á kaupum og sölu á skotvopnum, bætt félagslegt stuðningskerfi, takmarkanir á áfengiskaupum og fræðsla um heilbrigt líf í skólum. Fjölmargar þjóðir hafa gert áætlanir um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum, þeirra á meðal eru Bandaríkin, Noregur, Ásralía og Finnland.
Wilhelm sagði að vel þyrfti að huga að aðstandendum eftir sjálfsvíg einstaklings. Oft liðu þeir mikið heilsutjón og hægt væri að bæta líðan þeirra á tiltölulega auðveldan hátt „Við þurfum bara lítið af pening og smá vilja að fylgja aðstandendum eftir í eitt ár, það yrði stórt skref til bættrar þjónustu,“ sagði Wilhelm.
Hann sagði að stórt skref yrði stigið í rétta átt ef komið yrði upp forvarnarsetri á þessu sviði. Þar væri yfirsýn yfir málaflokkinn; stundaðar rannsóknir, unnið að endurmenntun og þjóðaráætlun og þar væri hægt að halda utan um samvinnu við forvarnarsamtök.