Stálheppnar að sleppa út úr íbúðinni

Eldsvoði í Hraunbæ 30 í nótt
Eldsvoði í Hraunbæ 30 í nótt Mynd/Pressphotos.biz

Kona og barnabarn hennar sluppu út úr brennandi íbúð í Hraunbæ á þriðja tímanum í nótt. Segir varðstjóri í slökkviliðinu að þær hafi verið stálheppnar að sleppa út úr íbúðinni en hún er mjög illa farin eftir brunann. Rýma þurfti stigaganginn og var þrennt  flutt á sjúkrahús. Samkvæmt upplýsingum frá bráðamóttöku Landspítalans var líðan þeirra þriggja sem þangað komu í nótt ágæt og hafa þau öll verið útskrifuð af sjúkrahúsinu.

Að sögn varðstjóra er mikil mildi að þær komust út úr brennandi íbúðinni en meðal annars var pússningin í lofti íbúðarinnar farin að brotna. Eldurinn kviknaði út frá logandi kerti og konan og barnið voru sofandi þegar kviknaði í. Þær voru komnar út úr íbúðinni þegar slökkvilið og lögregla kom á staðinn.

Rýma þurfti allar íbúðir í stigaganginum vegna reyks og komu liðsmenn Rauða krossins á staðinn og veittu íbúum hússins aðstoð. Meðal annars þurfti að koma einhverjum íbúum í húsaskjól í nótt þar sem reykjarlykt var komin inn í allar íbúðir stigagangsins. Eins var strætisvagn sendur á staðinn og vill slökkviliðið koma á framfæri þakklæti til Rauða krossins og Strætó fyrir aðstoðina í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert