Niðurstöður í viðamikilli rannsókn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, sýna stofnhrun í þorski við upphaf 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum allt fram til okkar tíma.
Í þessum rannsóknum studdist hún við bein sem komu upp við fornleifagröft í fornum og yfirgefnum verbúðum víða um land.
Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands kemur meðal annars fram, að niðurstöður rannsóknanna hafi birst í vikunni í vísindatímaritinu Royal Society's Proceedings B, en ritið mun vera eitt það virtasta í veröldinni á sviði líffræði.