Björgunarsveitir að störfum

Björgunarsveitir aðstoða nú fólk vegna óveðurins sem gengur yfir Suður- …
Björgunarsveitir aðstoða nú fólk vegna óveðurins sem gengur yfir Suður- og Suðvesturland. mynd/Landsbjörg

Nokkrar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið kallaðar út nú eftir hádegi í ýmiss konar aðstoð tengdri óveðrinu sem gengur yfir hluta landsins. Þrjár björgunarsveitir eru nú að störfum á Hellisheiði og aðstoða þar farþega. Hellisheiði og Þrengslum hefur verið lokað. Þá Suðurlandsvegur frá Hellisheiði að Rauðavatni lokaður.

Björgunarsveitin Víkverji  fergði þakplötur sem losnuðu af hlöðu við bæ við Vík í Mýrdal, í Vestmannaeyjum var tilkynnt um sólpall og grindverk sem var að fjúka en sveitin var afturkölluð nokkrum mínútum síðar þar sem búið var að bjarga málum.

Björgunarsveitin Tintron í Grímsnes- og Grafningshreppi dró upp rútu sem sat föst þversum á veginum fyrir Kaldárhöfða en hún var á leið að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum til að draga upp bíl sem sat þar fastur og hindraði mokstur.

Hjálparsveit skáta í Garðabæ er í Heiðmörk þar sem fjórir sitja fastir í bíl og Hjálparsveit skáta í Hveragerði er á leið á Hellisheiði þar sem tveir bílar eru fastir við afleggjarann inn að Hellisheiðarvirkjun. Að sögn þeirra sem þar bíða er bílana að fenna í kaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert