„Við getum ekki horft fram hjá okkar minnstu bræðrum og systrum sem eru í neyð í Kópavogi og sagt að það sé ekki hægt að gera hlutina. Að setja hlutina í nefnd á meðan það er á vergangi. Það gengur ekki,“ segir Gunnar Birgisson bæjarfulltrúi í Kópavogi. Hann segir meirihlutann í Kópavogi traustan.
Tilefnið er sú ákvörðun hans að styðja tillögu minnihlutans í húsnæðismálum á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Felur hún í sér fjölgun félagslegra íbúða, ráðstöfun sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og flokksbróðir Gunnars telur „brjálæði“ með hliðsjón af skuldastöðu bæjarfélagsins.
„Að ákveða að eyða ríflega 3 milljörðum króna á einum fundi er brjálæði,“ sagði Ármann í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
Gunnar gefur aðspurður ekki upp hvort hann styðj Ármann í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Neyðarástand í húsnæðismálum
- Hvað er á seyði í Kópavogi?
„Bæjarfélagið dafnar en líður fyrir það að menn eru ekki duglegir að taka ákvarðanir í mikilvægum málum. Á bæjarstjórnarfundinum í gærkvöldi kom tillaga frá minnihlutanum, endurflutt tillaga frá því í nóvember, sem var að tillögu bæjarstjóra sett í nefnd. Það eru öll mál sett í nefnd í Kópavogi í dag.
Eðlilega studdi ég tillöguna, enda er algert neyðarástand í félagslegum leiguíbúðum. Það eru fleiri hundruð manns á biðlista. Það kemur að því að menn þurfa að fara að gera eitthvað. Það þýðir ekki lengur að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut. Ég var afar ósáttur við það og studdi því í tillöguna í gær.“
Bæjarfélagið hafi borð fyrir báru
- Haft var eftir Ármanni á mbl.is í gærkvöldi að ákvörðunin væri „brjálæði“ í ljósi fjárhagsstöðu bæjarins.
„Ég vísa því algerlega á bug. Í fjárhagsáætlun bæjarins er ekki gert ráð fyrir að ein einasta lóð skuli vera seld eða byggingarréttur. Það liggur fyrir að það sem er í pípunum, í skipulagi og annað, mun skila einum og hálfum til tveimur milljörðum króna. Þannig að þessi ákvörðun hefur engin áhrif á skuldastöðu bæjarsins, engin.
Þó svo að það hefði verið hefði það verið réttlætanlegt. Við getum ekki horft fram hjá okkar minnstu bræðrum og systrum sem eru í neyð í Kópavogi og sagt að það sé ekki hægt að gera hlutina. Að setja hlutina í nefnd á meðan það er á vergangi. Það gengur ekki.“
Ósamstaða hafi áður komið upp
- Nú hefur skapast eining milli þín og minnihlutans í þessu mikilvæga máli. Er enn þá meirihluti í Kópavogi?
„Já, já. Þó það sé ósamstaða um eitt mál hefur það oft gerst áður í minni tíð í meirihlutanum. Menn hafa komið með tillögur. Minnihlutinn flutti tillöguna sem ég flutti í nóvember og komu með hana lítið breytta.“
- Mun meirihlutinn halda fram að kosningum?
„Ég er ekkert á leið út úr honum. En ég er búinn að vera mjög óhress í þessu máli og mörgum öðrum þar sem það vantar ákvarðanir og stefnu. Þetta ástand hjá okkur er neyðarástand. Ég held að það sjái það allir sem kynna sér málið. Þótt að við séum ósammála í einu máli að þá hefur það ekkert með að það gera að meirihlutinn sé ekki enn þá í gangi.“
- Hvern mundu styðja í oddvitasætið í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum?
„Ég hef ekkert gefið það upp enn þá.“
- Nýtur núverandi bæjarstjóri Kópavogs stuðnings þíns?
„Ég hef ekkert gefið það upp hvern ég muni styðja,“ segir Gunnar.
Sóttist eftir fyrsta sætinu
Hinn 20. febrúar 2010 fór fram prófkjör sjálfstæðismanna í Kópavogi.
Ármann fór með sigur af hólmi með 1.677 atkvæði en Gunnar var þriðji með 1.366 atkvæði.
Sóttust báðir eftir fyrsta sætinu.
Í desember sl. gaf Gunnar upp að hann myndi ekki bjóða sig fram í prófkjörinu í vor.
Gunnar er fæddur 30. september 1947 og verður því 67 ára í haust.