Útiloka ekki að leita til dómstóla

mbl.is/Brynjar Gauti

Fulltrúar fjögurra náttúruverndarsamtaka, sem mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem fjallað var um Norðlingaölduveitu og friðlýsingu Þjórsárvera, sögðust aðspurðir ekki útiloka að leita til dómstóla vegna ákvörðunar Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, að breyta fyrirhuguðum mörkum á friðlandinu í Þjórsárverum.

Samtökin fjögur, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Vinir Þjórsárvera, sögðust telja að tillaga ráðherra samræmdist hvorki lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 né afmörkun svæða samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða hafi verið byggð á og flokkaði Norðlingaölduveitu í verndarflokk áætlunarinnar.

Þá gengi tillaga umhverfisráðuneytisins beinlínis gegn rökstuðningi í þingsályktunartillögunni sem samþykkt hafi verið 14. janúar 2013 og sömuleiðis gegn tveimur síðustu náttúruverndaráætlunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert