Nú í janúar hófu 16 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur fjóra mánuði, því lýkur um miðjan maí 2014 og þá fara nemendurnir í starfsnám í lögreglunni.
Af þessum nýnemum hafa fimm starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá tveimur mánuðum til tæplega níu mánaða. Meðalaldur nýnemanna er 24,8 ár sem er nokkru lægri meðalaldur en undanfarin ár. 11 konur eru í hópnum eða 68,75%, sem er hæsta hlutfall kvenna sem nokkru sinni hefur verið og í fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta nemenda, segir í frétt á vef lögreglunnar.
Menntun innan hópsins er margvísleg og nýnemarnir hafa t.d. stundað nám, um skemmri eða lengri tíma, í spænsku, félagsfræði, flugumsjón, afbrotafræði, lögfræði, íþróttafræði, viðskiptafræði og ferðamálafræði.
Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál eru ferðalög, sund, ólympískar lyftingar, knattspyrna, skíðamennska, hnefaleikar, frjálsar íþróttir, körfubolti og íshokkí.