„Reynir hringdi í mig eftir þáttinn og hótaði mér því að ef ég myndi ekki biðja DV afsökunar á því sem ég sagði í morgunþætti Rásar 2 að þá færi hann í mig. Ég bara ætla að viðurkenna það að ég var gjörsamlega miður mín og hrædd eftir þetta símtal.“
Þetta segir Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, í samtali við mbl.is en hún sagði í morgunþætti Rásar 2 í morgun að verið væri að reyna að koma höggi á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra.
„Þetta er ákveðin þöggun að það sé verið að reyna að hóta mér og ég kann ekki við það.“ Þórey segir Reyni Traustason, ritstjóra DV, strax hafa verið mjög æstan. Hún hafi beðið hann um að ræða málið í rólegheitunum en hann ekki viljað það.
„Ritstjórinn var að biðja mig um að draga tilbaka það sem er satt og rétt en ég er bara að lýsa því hvernig þetta mál horfir við mér. Það er mikilvægt að gera það sem er rétt í þessu og fólk á ekki að komast upp með svona hótanir. Hann sagði þetta ítrekað við mig í samtalinu þangað til hann skellti á mig. Og ég var alveg miður mín. Þetta er ekki símtal sem nokkur vill fá,“ segir hún ennfremur.
Frétt mbl.is: Myndi svara fullum hálsi