Skömmin á röngum stað

Húsnæðið að Funahöfða þar sem 75 ára gamall viðmælandi mbl.is …
Húsnæðið að Funahöfða þar sem 75 ára gamall viðmælandi mbl.is bjó síðastliðið ár. Hallur Már

75 ára gamall múrari, sem orðinn er slitinn á líkamanum, valtur á fótunum og bjó síðastliðið ár í óleyfisíbúð í Funahöfða, kennir sjálfum sér um að hafa komið sér í aðstæðurnar sem hann segir hafa brotið sjálfsmyndina algerlega niður, en aðstæður íbúa í atvinnuhúsnæði hafa lítið breyst í tíu ár.

Í samtali við mbl.is sagði hann: „Ég hafði bara hugsað þetta sem augnablik, það var bara mér að kenna [að ég hafi þurft að vera þarna].“ Í síðustu viku birtist viðtal við austur-evrópskan verkamann sem hefur verið í sömu sporum síðastliðin þrjú ár og sá hafði einnig ætlað sér að stoppa stutt við í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði.

Þeir eru sammála um að skömmin, sem fylgir því að búa á slíkum stöðum, sé mikil, þangað bjóði enginn gestum og fólk vilji sem minnst tala um sína hagi. Enginn þarf að efast um að aðstæðurnar séu slæmar, en fyrir jól var greint frá því í Ríkissjónvarpinu að leigusali hefði rukkað leigutaka án þess að eiga eignina og að íbúar hafi verið án rafmagns dögum saman

Í samræðum við við fólk sem þekkir til á slíkum stöðum kemur í ljós að fólk býr í slíku húsnæði af þremur ástæðum. Erlent verkafólk sem sendir peninga heim eða er að spara og vill vera þarna. Fólk sem er hreinlega ekki húsum hæft annarsstaðar (slökkviliðið hefur t.a.m. þurft að fá lögreglufylgd í reglubundið eldvarnareftirlit). Þá er þarna fólk sem á ekki annarra kosta völ, kannski reglufólk með vinnu en ræður ekki við verðið á leigumarkaði.

Tíu ára pattstaða

Skömmin ætti þó kannski frekar að vera sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsyfirvalda þar sem ekkert hefur þokast í málunum á undanförnum tíu árum. Á þeim tíma hefur verið litið í hina áttina á meðan þúsundir hafa þurft að pukrast með búsetu sína án þess að njóta nokkurra réttinda.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, sem líklega hefur besta yfirsýn á umfang vandans, hefur á tímabilinu farið fram á að nokkrum slíkum stöðum yrði lokað. En þegar kemur að húsnæði þar sem ekki er hægt að fara fram á lokun vegna eldvarnarmála þó augljóst sé að bæta verði úr ákveðnum atriðum, þá vandast málið.

Húsnæðið er í grunninn óleyfilegt og því er ekki hægt að fara fram á umbætur frekar en hægt væri að krefjast þess að maður á stolnum bíl myndi laga framljósin. Slík krafa myndi í eðli sínu fela í sér að búið væri að fallast á búsetuna.

Framboð og eftirspurn

Eftirspurnin er mikil eftir leiguhúsnæði eða herbergjum á verði sem fólk, sem hefur minna á milli handanna, hefur vilja eða tök á að greiða og fátt bendir til þess að draga muni úr þeirri þörf. Á meðan er offramboð af skrifstofuplássi í gömlum iðnaðarhverfum og því þarf engan að undra að þar nái framboð og eftirspurn saman. Því er ekki óeðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort ástandið myndi skána ef starfsemin yrði gerð lögleg og þar af leiðandi sýnileg. Myndu aðstæður þeirra þúsunda sem búa ólöglega batna og myndi skömmin sem fylgir búsetunni minnka? 

Einu augljósu úrræðin tengd aðstæðum í óleyfisíbúðum eru í höndum slökkviliðsins, sem skrifaði frekar afdráttarlaust minnisblað í haust fyrir stjórn SHS, sem er m.a. skipuð Jóni Gnarr borgarstjóra og bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að ekki verði lengur unað við núverandi pattstöðu og „að gera ekkert er verra en engin lausn á þessu máli enda hafa sveitarfélögin þá enga stjórn á þróun mála.“ Yfirvöld hafi enga yfirsýn eða stjórn á ástandinu, sem hafi lítið breyst á undanförnum tíu árum.

Þrátt fyrir að Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hafi skipað starfshóp í tengslum við málið í lok árs 2006 er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að yfirvöld hafi kosið að líta undan ástandi þar sem þúsundir leigjenda eru algerlega réttlausir gagnvart leigusölum sínum, greiða leiguna svart og geta átt von á að leigan hækki fyrirvaralaust.

Reynt að kæra til að þoka málum áfram

Samkvæmt ráðleggingum hópsins hafði slökkviliðið á árunum 2007 til 2009 tímabundna heimild í samvinnu við byggingareftirlit og fulltrúa þess til að hafa eftirlit með ósamþykktri búsetu í atvinnuhúsnæði og gat þá beitt þvingunarúrræðum og lagt fram kæru ef hætta stafaði af búsetunni.

Sú heimild rann þó út fyrir fjórum árum og til að reyna að þoka málum útbjó SHS kæru fyrir tveimur árum á hendur leigusala sem hafði leigt út óleyfisíbúð þar sem íbúar voru fluttir á slysadeild eftir að bruni kom upp. Eldsvoðinn varð í kjallara þar sem einungis ein flóttaleið var út úr húsinu og litlar líkur voru taldar á að íbúar gætu bjargað sér út kæmi eldur upp þegar þeir væru sofandi.

Kæran var gerð á þeim forsendum að leigusalinn hefði stofnað mannslífi í hættu í gróðaskyni. En í 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga segir að sá skuli sæta allt að fjögurra ára fangelsi „sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska“.

Ákæruvald sýslumannsins í Kópavogi, sem fer með ákæruvald á höfuðborgarsvæðinu, sendi svar um hæl að ekki hefði verið gefin út ákæra þar sem málið hefði ekki þótt líklegt til sakfellingar.

mbl.is mun halda áfram að fjalla um málið á næstunni.

Slökkviliðið hefur kortlagt nokkuð ítarlega hvar óleyfileg búseta er á …
Slökkviliðið hefur kortlagt nokkuð ítarlega hvar óleyfileg búseta er á höfuðborgarsvæðinu.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
Búið er í atvinnuhúsnæði víða. Myndirnar eru úr skýrslu slökkviliðsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert